Körfubolti

Pavel: Þurfum að lækka væntingarnar í garð KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úrvalslið Iceland Express-deildar karla.
Úrvalslið Iceland Express-deildar karla. Mynd/Stefán

Pavel Ermolinskij var í dag kjörinn besti leikmaður fyrri hluta Iceland Express-deildar karla. Keppni í deildinni hefst á ný eftir jólafrí á fimmtudagskvöldið.

„Mér líst vel á það sem er framundan. Ég fer varla að skora meira en ég hef gert út af þessum verðlaunum en það er alltaf gaman að fá viðurkenningar," sagði Pavel.

„Deildin í haust hefur verið athyglisverð og mjög jöfn. Liðin hafa verið að vinna hvort annað og þó svo að Snæfell sé efst eins og stendur þá hafa þeir enga yfirburði í deildinni. Það eru enn mörg lið sem geta gert tilkall til titilsins."

KR er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Snæfells. Þó getur enn mikið breyst þar til að keppt verður um sjálfan titilinn. Snæfell varð til að mynda í sjötta sæti deildarinnar í fyrra en fór svo alla leið í úrslitakeppninni.

„Það verður vonandi eitthvað svipað upp á teningnum hjá KR miðað við stöðuna í dag," sagði hann í léttum dúr. „En það skiptir mestu máli að vera í einu af fjórum efstu sætunum upp á heimavallarrétt að gera í fyrstu umferðinni. En eftir það skiptir það minna máli."

„Mér líst ágætlega á mitt lið. Staðan er að vísu ekkert sérstök og við þurfum nú að byrja nýtt ár á núlli og lækka þær væntingar sem gerðar voru til okkar í upphafi tímabilsins. Við trúðum þessu sjálfir en þurfum nú að átta okkur á því að við erum ekki það lið sem allir héldu að við værum - að við myndum fara í gegnum þetta tímabil taplausir og ég veit ekki hvað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×