Innlent

„Of mikið gert úr áhrifum þessara breytinga“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Reynir Jónsson telur að fyrirhugaðar breytingar leiði til þess að fyrirtækið nái að spara sem mest þannig að það hafi áhrif á sem fæsta farþega
Reynir Jónsson telur að fyrirhugaðar breytingar leiði til þess að fyrirtækið nái að spara sem mest þannig að það hafi áhrif á sem fæsta farþega Mynd: Stefán Karlsson
„Það er bara staðreynd að það eru afgerandi fæstir farþegar í þessum síðustu ferðum á kvöldin," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. „Þegar við fáum þau skilaboð frá eigendum okkar, sveitarfélögunum, að við verðum að hagræða, þá förum við bara niður í leiðarkerfið og skoðun hvernig við getum sparað sem mest þannig að það hafi áhrif á sem fæsta farþega," segir Reynir.

Hann segir aðspurður að forsvarsmönnum Strætó bs. hafi verið kunnugt um þau áhrif sem það hefur á Landspítalann að hætta akstri vagna um klukkustund fyrr á kvöldin og hefja akstur síðar á laugardagsmorgnum.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans, segir breytingarnar á leiðakerfinu, sem taka gildi í lok febrúar, hafi í för með sér óhagræði fyrir starfsfólk og aukinn kostnað fyrir spítalann.

Lítið hlutfall starfsmanna með Strætó

Reynir segir aðspurður að ákvörðun um breytingarnar hafi verið tekin og að þeim verði ekki haggað.

Hann bendir á að sveitarfélögin reki strætisvagnakerfið en ríkið reki Landspítalann meðal annarra stofnana, og í gegn um tíðina hafi sú spurning komið upp hvort rétt sé að sveitarfélögin séu að leggja út í mikinn kostnað til að þjónusta ríki.

Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir um fjölda farþega með síðustu strætóferðunum má leiða að því líkur að afar lítið hlutfall starfsmanna Landspítalans noti strætisvagna til að komast heim að lokinni kvöldvakt.

Heilt leiðakerfi fyrir örfáa einstaklinga

„Það er of mikið gert úr áhrifum þessara breytinga að okkar mati," segir Reynir og telur ekki réttlætanlegt að heilu leiðakerfi sé haldið úti fyrir örfáa einstaklinga.

Flestir þeirra farþega sem ferðast með strætó síðla kvölds nýta sér stofnleiðirnar 1,3 og 6 sem allar liggja framhjá Landspítalanum.

Aðspurður segir Reynir að því hafi verið velt upp hvort mögulegt hafi verið að halda þeim ferðum áfram gangandi lengur á kvöldin. Niðurstaðan var hins vegar sú að það borgaði sig ekki, því þó meirihluti þeirra fáu farþega sem noti strætó síðla kvölds noti einmitt þessar leiðir þá séu þetta ennfremur þær leiðir sem dýrast er að halda úti.


Tengdar fréttir

Niðurskurður hjá Strætó bitnar á Landspítalanum

Fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi Strætó bs. munu hafa í för með sér óhagræði fyrir starfsfólk Landspítalans og aukinn kostnað fyrir spítalann. Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans, hefur sent erindi til Strætó bs. þar sem hún vekur athygli á þessum atriðum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×