Innlent

Jón Bjarnason: "Ég er enn sjávarútvegsráðherra, eins og þú sérð“

Breytingar á ríkisstjórninni virðast óhjákvæmilegar því hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra eru tilbúin að lýsa því yfir að Jón Bjarnason njóti trausts þeirra til að gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar funduðu laust eftir hádegi, meðal annars til að ræða framgöngu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en það olli taugatitringi í stjórnarsamstarfinu að hann skyldi ekki upplýsa ríkisstjórnina um gerð frumvarps til laga um stjórn fiskveiða.

Þegar Jón var spurður af fréttamönnum hver hans staða væri svaraði hann: „Ég er enn sjávarútvegsráðherra, eins og þú sérð."

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vísaði á þingflokk Vinstri grænna spurður út í afstöðu sína til málsins, flokkurinn fundaði um stöðu Jóns í dag. Ekki er ljóst hver niðurstaða fundarins er.

Steingrímur sagðist deila að hluta til gagnrýni á vinnubrögð sjávarútvegsráðherrans, vegna vinnslu hans á kvótafrumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×