Innlent

Harður samningavetur fram undan

Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson, forsvarsmenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, telja strembnar samningaviðræður fram undan á komandi mánuðum.
Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson, forsvarsmenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, telja strembnar samningaviðræður fram undan á komandi mánuðum.
Komandi kjaraviðræður milli verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda gætu orðið með þeim harðari að mati Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambanda Íslands (ASÍ) og Vilhjálms Egilssonar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA).

Viðræður ASÍ og SA hófust í desember og fara brátt aftur á fulla ferð eftir jólafrí. Í samtali við Fréttablaðið segir Gylfi að ekki sé aðeins við atvinnurekendur að eiga, heldur hafi samskipti við stjórnvöld verið erfið.

Aðspurður segir Gylfi að víðtæk krafa sé um launahækkanir meðal aðildarfélaga ASÍ sökum þess að kaupmáttur hafi lækkað mikið.

„Hvergi annars staðar í OECD hefur kaupmáttur launa lækkað eins og hér og það er mjög víða krafa á almennar hækkanir sem geta skilað kaupmáttaraukningu til okkar félagsmanna. Þá er ljóst að það er áhersla á að tryggja kjarajöfnun áfram, hvað varðar launaþróun, en auðvitað er róðurinn léttari þegar verðbólga er komin niður að tveimur prósentum.“

Hækkun skatta og gjalda hjá ríki og sveitarfélögum mun hins vegar flækja málin að mati Gylfa.

„Sveitarfélög hafa verið að hækka öll gjöld hjá sér og velta þannig sínum vanda yfir á launafólk, þannig að það eru eðlileg viðbrögð að fólk vilji fá hærri laun til að standa undir hækkunum.“ Gylfi segist halda að viðræðurnar verði erfiðar. Hann vill þó ekki spá verkföllum í ár.

„Ég vil ekki spá fyrir um það núna, en það er víða mjög stutt í þolinmæðinni þannig að það gæti komið til þess.“

Vilhjálmur Egilsson, tekur undir þá spá Gylfa að viðræðurnar gætu orðið strembnar. „Þær gætu orðið það. Sérstaklega vegna þeirra sem telja sig vera stikkfría frá samfélaginu og krefjast tugprósenta hækkana.“

Vilhjálmur segir lausnina liggja í stöðugleika á atvinnumarkaði.

„Það er ekki hægt að hækka um tugi prósenta á einum stað án þess að það hafi áhrif á eitthvað annað og við viljum því samræmda launastefnu fyrir alla hópa. Tryggustu kjarabæturnar fást með því að fólk fari af atvinnuleysisbótum og í vinnu, en eitt af frumskilyrðunum fyrir því að skapa hagstæðar aðstæður í hagkerfinu er stöðugleiki og kjarasamningar til þriggja ára sem eru hóflegir og setja ekki allt á hliðina.“

thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×