Lífið

Valdatafl í Kandílandi

Verkið verður sýnt fjórum sinnum næstu daga en sýningum lýkur á laugardag.
Verkið verður sýnt fjórum sinnum næstu daga en sýningum lýkur á laugardag.

Íslenska Hreyfiþróunarsamsteypan frumsýndi á dögunum dansverkið Kandíland, sem byggir á konungaverkum Williams Shakespeare. Verkið er annar hlutinn í þríleik sem byggir á verkum Shakespeares; sá fyrsti var sóttur í harmleikina en sá síðasti verður byggður á gamanleikjunum.

Arna Ýr Sævarsdóttir, framleiðandi sýningarinnar, segir sýninguna fyrst og fremst byggjast á innblæstri úr verkunum.

„Við reyndum ekki að búa til söguþráð með hliðsjón af verkunum. Þetta fjallar miklu frekar almennt um völd og valdaskipti, sem voru algeng í konungaverkunum, auk þess sem þarna má finna ákveðin karaktereinkenni konunganna.“

Katrín Gunnarsdóttir dansari segir hópinn ekki hafa lagt upp með að gera þríleik.

„Þetta byrjaði sem almennur áhugi á harmleikjunum en fljótlega kviknaði sú hugmynd að fyrst við værum ekki að afmarka okkur við eitt verk gæti verið skemmtilegt að leggja Shakespeare eins og hann leggur sig undir og gera þríleik.“

Verkið verður sýnt fjórum sinnum næstu daga en sýningum lýkur á laugardag þar sem einn dansaranna er á leið til Brussel vegna annars verkefnis.

„En það er aldrei að vita nema við setjum það aftur upp þegar allir eru á landinu,“ segir Katrín. „Við erum langt því frá orðin leið á því.“

Kandíland er sýnt í Kassanum í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Öll tónlist í verkinu er með hljómsveitinni Queen en um hljóðmynd sér Gísli Galdur Þorgeirsson. Víkingur Kristjánsson leikstýrir en flytjendur eru auk Katrínar þau Melkorka Sigríður, Ragnheiður Bjarnarson, Vigdís Eva Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson.- bs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.