Innlent

Enn vitlaust veður undir Eyjafjöllum

Mikið rok er á svæðinu og hvassar vindhviður.
Mikið rok er á svæðinu og hvassar vindhviður. MYND/Vigfús Andrésson

Lögreglan á Hvolsvelli varar enn við veðrinu sem geisað hefur undir Eyjafjöllum í dag og í Mýrdalnum. Mikið rok er á svæðinu og hvassar vindhviður. Á svæðinu í kringum Svaðbælisá er mikið sandfok og því hætta á skemmdum á ökutækjum sem fara þar um.

Lögreglan mælist því til þess að fólk sé ekki á ferðinni á þessum slóðum að þarflausu. Á vef Vegagerðarinnar má fylgjast með veðrinu, en búist er við að það lægi seinni partinn eða með kvöldinu.

Vegagerðin varar ennfremur við óveðri á Kjalarnesi. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en annars eru vegir auðir á Vesturlandi.

Á Austurlandi er vetrarfærð og víða mjög slæmt veður. Stórhríð er á Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarði eystra, Fjarðarheiði Fagradal og í Berufirði. Fjarðarheiði er þungfær en ófært er á Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi.

Meðfylgjandi mynd tók Vigfús Andrésson í Berjanesi undir Eyjafjöllum en þar er mikið öskufok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×