Innlent

„Hálfvitar rífast“ á Alþingi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Kári Kristjánsson sakar Þráin Bertelsson um hroka.
Sigurður Kári Kristjánsson sakar Þráin Bertelsson um hroka.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði Þráin Bertelsson, þingmann VG, um hroka í umræðum um störf þingsins í dag. Sigurður Kári gagnrýndi þar ummæli sem Þráinn lét falla á fésbókarsíðu sinni. Þar sagði Þráinn að þingfréttir fjölmiðla væru svo til eingöngu sóttar í dagskrárliðina „Störf þingsins" eða „Óundirbúnar fyrirspurnir" sem hvor um sig væru hálftímaupphitun áður en raunveruleg þingstörf hefðust. „Þess vegna halda margir að þingstörf séu hálftími á dag, undir dagskrárlið sem gæti heitið „Hálfvitar rífast" sagði Þráinn á fésbókarsíðu sinni.

Sigurður Kári sagði í umræðum um störf þingsins í dag að það virtust ekki vera nein takmörk fyrir því hversu langt menn teldu sig geta gengið í þeirri viðleitni að vera sniðugir á kostnað annarra en jafnframt hrokafullir á kostnað Alþingis og annarra alþingismanna. Hann hefði skilið orð Þráins þannig að það ætti að leggja liðinn „Störf þingsins" niður.

Sigurður Kári sagðist vera algjörlega ósammála. „Þetta er líka mikilvægur vettvangur fyrir stjórnarandstöðu til að veita framkvæmdavaldinu aðhald og spyrja ríkisstjórnina spurninga," sagði Sigurður Kári.

Sigurði Kára virtist þó ekki koma hrokinn frá umræddum þingmanni á óvart. „Þessi þingmaður hefur svo sem áður talið sig vera þess umkominn að gefa almenningi sem er honum ekki sammála, til dæmis um greiðslur Alþingis til listamanna, einkunnir,“ sagði Sigurður Kári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×