Erlent

Börnin fá óvenjulegt kraftaverkameðal

Ástandið í Sómalíu er hörmulegt. Miklir þurrkar og hungursneyð hafa lagst ofan á þjakandi stríðsátök stjórnarhersins og al-Shabab uppreisnarmanna sem reyna allt hvað þeir geta til að steypa stjórnvöldum af stóli.
Ástandið í Sómalíu er hörmulegt. Miklir þurrkar og hungursneyð hafa lagst ofan á þjakandi stríðsátök stjórnarhersins og al-Shabab uppreisnarmanna sem reyna allt hvað þeir geta til að steypa stjórnvöldum af stóli. Mynd/AP
Vannærð börn fylla flóttamannabúðir nærri Sómalíu, en stríðsátök og hungursneyð þjaka landið. Öll fjárframlög til Rauða kross Íslands fara nú í að kaupa óvenjulegt kraftaverkameðal fyrir börnin, vítamínbætt hnetusmjör, sem reynst getur þeim lífgjöf.

Ástandið í Sómalíu er hörmulegt. Miklir þurrkar og hungursneyð hafa lagst ofan á þjakandi stríðsátök stjórnarhersins og al-Shabab uppreisnarmanna sem reyna allt hvað þeir geta til að steypa stjórnvöldum af stóli.

Friðargæsluliðar eiga fullt í fangi með að standa vörð um vistir og neyðargögn, og fjöldi fólks hefur flúið til nágrannalandanna.

Vegur álíka mikið og nýburi

Í flóttamannabúðum í Kenýu, sem á landamæri að Sómalíu í Suðri, liggur Mihag, sjö mánaða gamalt sómalskt barn sem er alvarlega vannært og vegur álíka mikið og nýburi.

Amin, hjúkrunarfræðingur sem annast barnið, segir að hann eigi aðeins um helmingslíkur á að lifa af. Hann segir að börn eins og Mahig fari ekki úr huga hans jafnvel eftir að vaktinni á sjúkrahúsinu lýkur.

„Þegar ég er kominn í herbergið mitt er ég enn með hugann við þetta barn sem er á þessari deild, við þessar aðstæður. Ef ég myndi fjarlægja fötin núna færirðu að gráta, ef þú ert viðkvæmur,“ segir Amin.

Sími 904-1500

Rauði kross Íslands hefur á undanförnum tveimur vikum náð að safna tíu milljónum króna sem bætast við meira en fjórar milljónir sem þegar hafa verið sendar til svæðisins úr neyðarsjóð stofnunarinnar.

Öll fjárframlög renna nú óskipt til kaupa á vítamínbættu hnetusmjöri, en það er hálfgert kraftaverkameðal sem notað er til að hjúkra börnum til heilsu á þremur til fjórum vikum. Hægt er að gefa 1500 krónur til söfnunarinnar með því að hringja í síma 904-1500.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×