„Ég hef aldrei fengið svona á ævinni en er núna að éta bólgueyðandi töflur og liðaktín ásamt því að fara í sjúkranudd þrisvar í viku. Ætli ég mæti ekki í næstu áritun með svona lyftingahanska,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson. Jólatörnin er farin að setja mark sitt á poppstjörnuna því hún greindist nýlega með sinaskeiðabólgu.
Sinaskeiðabólgan lýsir sér þannig að erfitt er að taka í höndina á fólki og erfitt að halda á penna. „Ástæðan fyrir þessu er tvíþætt. Ég var að taka upp tónlistarmyndband fyrir UNICEF og í glæsilegu dansspori tókst mér að reka höndina í rafmagnstöflu. Hin ástæðan er sú að í síðustu viku hefur verið svolítill hamagangur í áritunum og mér tókst að skrifa nafnið mitt 900 sinnum,“ útskýrir Páll Óskar sem hyggst þó hvergi slaka á heldur ætlar að halda uppteknum hætti og mætir galvaskur í næstu átta áritanir sem skipulagðar hafa verið því hann veit, af eigin reynslu, hversu mikilvægt þetta er. Hann rifjar upp sögu af því þegar hann var fimmtán ára í London og beið eftir áritun frá breska poppbandinu Five Star í þrjá klukkutíma. „Ég sveif út úr plötubúðinni á bleiku skýi.“
Páll segir að áritanirnar séu einfaldlega hluti af því að hann komist í jólaskapið og þá sérstaklega að hitta smáfólkið. „Ég botna ekkert í því hvað lítil börn tengja við 41 árs gamlan homma með grátt í vöngum. En ef lögin eru grípandi og textarnir skýrir þá má aldrei gleyma því að börn eru músíkölsk. Ég kunni sjálfur alla Abba-texta utan að sem krakki.“ - fgg

