Erlent

Ný kenning um hvarf Neanderdalsmanna

Ný rannsókn bendir til þess að Neanderdalsmenn hafi dáið út í Evrópu þar sem þeir urðu minnihlutahópur í álfunni eftir að nútímamenn hófu að flytja þangað í stórum stíl frá Afríku.

Fjallað er um þessa rannsókn í vísindatímaritinu Science en menn hafa oft velt vöngum yfir því hve Neanderdalsmenn dóu hratt út. Þeir hurfu fyrir um 40.000 árum eftir að hafa lifað í Evrópu í um 300.000 ár. Síðustu sporin um þá í álfunni fundust í helli á Spáni.

Það voru vísindamenn frá Cambridge háskólanum sem unnu að rannsókninni en þeir fundu mun fleiri staði sem tilheyrðu nútímamönnum en Neanderdalsmönnum sem bendir til að þeir síðarnefndu hafi komist í minnihluta í Evrópu. Þeir hafi því þurft að flytja sig undan nútímamönnum á svæði sem ekki voru eins rík af landsgæðum.

Þar að auki benda mannvistarleifar til þess að nútímamaðurinn hafi verið mun duglegri til að þróa ýmis tól og tæki til að létta sér lífsbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×