Innlent

Helmingur fanga þiggur örorkubætur

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Helmingur allra fanga á Íslandi þiggur örorkubætur frá Tryggingastofnun. Laun sem fangar fá fyrir vinnu sína á bak við lás og slá skerða ekki bætur þeirra.

Fréttastofa hafði ávæning af því að umtalsverður fjöldi fanga væri á örorkubótum og óskaði því eftir tölum frá Tryggingastofnun í gær um hversu margir þeir væru. Svarið kom í dag:

Hundrað fimmtíu og tveir fangar sitja inni í fangelsum ríkisins í dag. Þar af eru 78 með öorkumat - en menn geta verið með mat frá Tryggingastofnun um örorku án þess að fá greiðslur. En rétt tæplega helmingur allra fanga á Íslandi, eða 74, fá örorkubætur frá Tryggingastofnun, meðal annars örorkulífeyri, örorkustyrk eða vasapeninga.

Fangar geta unnið á meðan þeir afplána sína refsingu og fá laun fyrir þá vinnu. Launin heita hins vegar þóknun - og eru því ekki skattskyld. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun var meðalþóknun fanga á síðasta ári 32 þúsund krónur á mánuði. En þar sem þóknunin er ekki skattskyld, dregst hún ekki frá greiðslum Tryggingastofnunar. Rétt er að geta þess að framboð á vinnu inni í fangelsunum hefur minnkað í kreppunni.

Þá má minnast þess að rúmlega fjórði hver fangi reyndist vera að svíkja atvinnuleysisbætur út úr Vinnumálastofnun á síðasta ári - en upp um þá komst þegar stofnun fékk fyrir ári heimild til að samkeyra upplýsingar frá Fangelsismálastofnun.

Þess má einnig geta að yfirmenn fangelsa á Íslandi hafa engar upplýsingar um hverjir af föngum þeirra eru metnir öryrkjar.

Öryrkjar í hópi fanga eru því býsna fjölmennir - ekki síst þegar til þess er litið að greiðslur til fanga frá Tryggingastofnun falla niður þegar þeir hafa setið inni í fangelsi samfellt í fjóra mánuði.

En daginn sem þeir ljúka afplánun og sleppa út í frelsið handan rimlanna eiga þeir á ný rétt á fullum örorkubótum í samræmi við sitt örorkumat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×