Skoðun

Að halla réttu máli

Heiðar Már Guðjónsson skrifar
Ég skrifaði grein í síðustu viku sem hét „Hvað framleiðir Ísland?" og færði fyrir því rök að framleiðsla Íslands væri ekki jafn mikið í evrum og tölur Hagstofunnar gefa til kynna. Nú hafa samtökin Já Ísland, sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB, vitnað í þessar ófullkomnu tölur Hagstofunnar til að reyna að sannfæra fólk um að ekki sé neitt vit í því fyrir Ísland að notast við aðra mynt en evru. Ég hefði vonast eftir uppbyggilegri rökræðu en raun ber vitni.

Í meðfylgjandi skífuriti sést skipting útflutningstekna Íslands, ef leiðrétt er fyrir því að ál er hvergi verðlagt í evrum, heldur dollurum, en Hagstofan metur það ranglega í evrum því álið er sent til Rotterdam, til umskipunar. Eins eru sjávarafurðir sem seldar eru alþjóðlega, það er til landa utan Evrópu, oftast verðlagðar í dollurum og það er leiðrétt í þessari mynd. Myndin ber það glögglega með sér að mikilvægasta mynt í útflutningi Íslands er dollarinn. Og það kemur ekki á óvart því Ísland framleiðir fyrst og fremst hrávörur sem alls staðar eru verðlagðar í dollurum.

Einn virtasti álitsgjafi heims um peningamál, Martin Wolf, sem heimsótti landið fyrir 2 vikum, sagði það fásinnu að blanda saman peningastefnu og aðild að ríkjabandalagi. Hann sagði þetta vera tvö aðskilin mál, sem þau eru sannanlega, og að Ísland gæti tekið upp hvaða mynt sem er á nokkrum vikum, meira að segja evru.

Hann sagði jafnframt að sér litist ekki á framtíð evrunnar, hún væri allt of óviss, og Kanadadollari hentaði Íslendingum betur. Kanadadollara má líkja við dollara fyrir 100 árum þegar auðlindir Bandaríkjanna voru að mestu ósnertar og því er ljóst að Kanadadollari mun halda verðgildi sínu betur en Bandaríkjadollari. Íslendingar hljóta að kjósa mynt sem heldur verðgildi sínu.




Skoðun

Sjá meira


×