Viðskipti innlent

Járnblendið óbeint til stjórnvalda í Kína

Forstjóri Elkem Ísland, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, segir ekkert benda til annars en að starfsemi í verksmiðjunni verði óbreytt þrátt fyrir nýja eigendur. Fréttablaðið/GVA
Forstjóri Elkem Ísland, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, segir ekkert benda til annars en að starfsemi í verksmiðjunni verði óbreytt þrátt fyrir nýja eigendur. Fréttablaðið/GVA
Kínverska fyrirtækið China National Bluestar hefur keypt norska fyrirtækið Elkem AS, móðurfélag Elkem Ísland ehf., sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Kínverska ríkisfyrirtækið ChemChina Corporation á 80 prósenta hlut í China National Blue­star, en bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Blackstone Group á 20 prósenta hlut. Óbeint má því segja að Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga sé komin í meirihlutaeigu kínverska ríkisins.

Elkem var í eigu norska stórfyrirtækisins Orkla, sem seldi Elkem á tvo milljarða Bandaríkjadala í reiðufé, sem jafngildir um 238 milljörðum króna. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki kínverskra stjórnvalda og samkeppnisyfirvalda í Noregi.

„Ef við horfum á þetta til einhverra ára verða engar breytingar hjá okkur tengdar þessu,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem Ísland.

Hann óttast ekki að verksmiðjunni á Grundartanga verði lokað eða hún færð til Kína. Slíkt sé einfaldlega ekki fýsilegur kostur, auk þess sem verksmiðjan þjóni nær eingöngu mörkuðum í Evrópu.

„Við erum búin að vera í uppbyggingu hér á undanförnum árum eftir tímabil þar sem lítið var gert. Verksmiðjan hér er komin í ágætis stand og engin efni til að gera eitt né neitt,“ segir Einar.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Orkla eru fjórir hlutar Elkem-samstæðunnar innifaldir í kaupunum: Elkem Silicon Materials, Elkem Foundry Products, Elkem Carbon og Elkem Solar. Orkla heldur hins vegar áfram Elkem Energi.

Kaupin munu ekki hafa tilfinnanleg áhrif á þær verksmiðjur sem Elkem hefur rekið, samkvæmt yfirlýsingu sem birt er á vef Orkla.

„Ég sé ekki að það breyti neinu fyrir okkur Íslendinga hvort fyrirtækið sé í eigu Kínverja eða Norðmanna, þetta er einn erlendur einkaaðili að selja öðrum erlendum einkaaðila,“ segir Katrín Júlíus­dóttir iðnaðarráðherra.

„Við erum með okkar regluverk og þessir nýju eigendur þurfa að fylgja því, eins og Norðmennirnir hafa gert hingað til,“ segir Katrín. „Svo getur maður líka séð það jákvæða við þetta, að fyrirtæki á Íslandi skuli vera álitið góður fjárfestingarkostur. Það hljóta að vera jákvæðar fréttir fyrir okkur á Íslandi.“ brjann@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×