Viðskipti innlent

Svekkjandi upp­gjör og aðstoðarforstjórinn látinn róa

Árni Sæberg skrifar
Stjórnendur Ölgerðinnar, sem fækkaði um einn í gær, hafa lækkað afkomuspá félagins.
Stjórnendur Ölgerðinnar, sem fækkaði um einn í gær, hafa lækkað afkomuspá félagins. Vísir/Vilhelm

Ölgerðin tilkynnti í gær að staða aðstoðarforstjóra hafi verið lögð niður og Gunnari B. Sigurgeirssyni, sem gegnt hefur þeirri stöðu, hafi verið sagt upp störfum. Daginn áður birti félagið ársfjórðungsuppgjör og lækkaði afkomuspá.

Í tilkynningu Ölgerðarinnar til Kauphallar segir að breytingar á skipuriti taki þegar gildi.

„Gunnar hefur starfað hjá Ölgerðinni síðan 2008 og komið að þróun og uppbyggingu á flestum vörumerkjum Ölgerðarinnar. Ég þakka honum fyrir óeigingjarnt starf í gegnum árin og óska honum velfarnaðar í framtíðinni“, er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar.

Töluvert minni hagnaður

Í fyrri tilkynningu félagsins segir að vörusala samstæðu Ölgerðarinnar hafi verið tvö prósent meiri á fyrsta ársfjórðungi 2024 en á sama tímabili 2023 og framlegð aukist um sjö prósent.

EBITDA, hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir, hafi numið 1.055 milljónum króna samanborið við 1.157 milljónir króna á fyrsta árfjórðungi ársins 2023, sem jafngildi níu prósent lækkun milli ára.

Hagnaður eftir skatta hafi verið 482 milljónir króna á ársfjórðungnum og lækki um helming frá fyrra ári. Sé leiðrétt fyrir einskiptishlutdeildartekjum frá sama tímabili í fyrra að upphæð 386 milljónum króna lækki hagnaður um 114 milljónir króna frá fyrra ári, eða nítján prósent.

Eigið fé í lok fyrsta ársfjórðungs 2024 hafi numið 15,8 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall verið 48,2 prósent, samanborið við 49,1 prósent við lok síðasta fjárhagsárs.

Collab hefur slæm áhrif á afkomuspá

Í tilkynningunni segir að afkomuspá stjórnenda fyrir samstæðu Ölgerðarinnar geri ráð fyrir að EBITDA verði 5.100 til 5.500 milljónir króna í stað 5.500 til 5.900 milljóna króna afkomuspár við upphaf fjárhagsársins.

Afkomuspá lækki aðallega vegna útlits um minnkandi tekjur af ferðamönnum vegna fækkunar gistinátta á þessu ári og minni neyslu.

Af lækkun afkomuspár séu 100 milljónir króna vegna aukinnar markaðssóknar Collab erlendis. Í fyrri spá hafi verið gert ráð fyrir 200 milljóna króna neikvæðum áhrifum á EBITDA. Samtals sé því gert ráð fyrir 300 milljóna króna neikvæðum áhrifum vegna útflutnings á Collab.

Neikvæð áhrif á EBITDA vegna Collab útflutnings hafi numið fimmtíu milljónum króna á ársfjórðungnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×