Erlent

Milljarðamæringur sneri á ættingjana áður en hann dó

Miklar fjárhæðir bíða nú afkomenda sérvitringsins.
Miklar fjárhæðir bíða nú afkomenda sérvitringsins. MYND/AP
Ættingjar bandarísks auðjöfurs fá nú loksins að njóta auðæva karlsins, 92 árum eftir að hann lést.

Þegar Wellington Burt, sem auðgaðist á timbri og járnframleiðslu lést, var hann á meðal tíu ríkustu manna í Bandaríkjunum. Í erfðaskrá sinni fyrirskipaði hann hinsvegar að ættingjarnir fengju ekkert af arfinum, fyrr en síðasta barnabarn hans hefði verið látið í 21 ár. Eina undantekningin var sú að eftirlætis sonur hans fékk greitt 30 þúsund dollara einu sinni á ári á meðan hann lifði. Hin börnin fengu smáupphæðir, þær sömu og þjónar og eldabuskur hans fengu.

Síðasta barnabarnið, Marion Lansill, dó síðan árið 1989 og þegar 21 ár var liðið frá dánardægri hennar hafa hafa fjárkröfur streymt í búið frá fólki sem segist vera skylt karlinum. Lögfræðingar hafa nú ákveðið að tólf erfingjar hins sérvitra milljarðamærings fái myndarlega arfgreiðslu frá ættföðurnum og er arfinum skipt eftir því hve nálægt menn eru karlinum á ættartrénu. Þeir eru á aldrinum 19 til 94 ára. Þeir sem standa honum næst fá sextán milljónir dollara, eða tæpa tvo milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×