Erlent

Google spáir Íslandi 12. sæti

Vinir Sjonna - flottir!
Vinir Sjonna - flottir!
Google spáir Íslandi 12. sæti í Eurovision á morgun, en Þýskaland er líklegasti sigurvegarinn.

Hugbúnaðarrisinn Google hefur undanfarin ár útbúið sérstaka Eurovision-vísitölu, sem mælir vinsældir laganna í keppninni byggt á því hversu oft er leitað eftir þeim á leitarvefnum og tengdum vefsíðum.

Vinsældirnar eru síðan greindar eftir löndum, og spáð fyrir um gengi laganna ef hvert land veitti lögunum stig í samræmi við fjölda leita. Á heimasíðum erlendra Eurovision aðdáenda er því haldið fram að þessi greiningaraðferð hafi spáð rétt fyrir um úrslit keppninnar síðustu tvö ár.

Eins og staðan er núna spáir Google því að þýski reynsluboltinn Lena sigri keppnina með 167 stig. Skrautlegu tvíburunum Jedward frá Írlandi er síðan spáð 2. sæti, en undanfarna daga hafa þeir verið efst á vinsældalista Google.

Frændum okkar Dönum er einnig spáð góðu gengi, en þeir munu samkvæmt Google lenda í 6. sæti. Ekki er talið líklegt að hinir íslensku Vinir Sjonna slái í gegn, en þeim er spáð 12. sæti með 43 stig.

Hægt er að nálgast spá Google hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×