Innlent

Fjölmenningardagur í Reykjavík á morgun

Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar verður haldinn hátíðlegur á morgun þegar að Jón Gnarr borgarstjóri setur hátíðina við Hallgrímskirkju klukkan 13.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að markmiðið með hátíðahöldunum sé að fagna þeirri fjölbreyttu menningu sem borgarsamfélagið býður upp á. Dagurinn er skipulagður af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í samstarfi við samtökin Samhljómur menningarheima. Undirbúningur fyrir hátíðina er nú að ná hámarki en alls koma 50 manns að framkvæmdinni á einn eða annan hátt. Boðið verður upp á glæsilega dagskrá sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölmenningin blómstri.

„Að setningu lokinni fer fjölþjóðleg skrúðganga af stað og verður gengið frá Hallgrímskirkju niður að Ráðhúsi Reykjavíkur. Í kjölfarið verður svo haldin fjölþjóðleg hátíð í Ráðhúsinu þar sem boðið verður uppá fjölbreytta og lifandi skemmtidagskrá. Í Iðnó verður fjölþjóðlegur markaður þar sem kynntar verða vörur og handverk frá hinum ýmsu löndum. Meðal atriða má nefna dansatriði frá Perú, Búlgaríu, og Thailandi," segir í tilkynningunni.

„Auk þess mun barnakór frá Litháen syngja nokkur lög og Pólskur söng- og danshópur mun leika listir sínar. Fjölmenningardagurinn hefur öðlast fastan sess í  hugum borgarbúa  og er ávallt vel sóttur af íbúum. Enda gefst einstakt tækifæri til að sýna sig og sjá aðra og kynnast framandi menningu og matargerð.

Allir eru velkomnir og sjá má ítarlegri dagskrá á heimasíðu Reykjavíkur www.reykjavik.is “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×