þjóðkirkjan Biskupsstofa sendi frá sér yfirlýsingu í gær í kjölfar viðtals við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur á sunnudagskvöld. Karl Sigurbjörnsson biskup hefur ekki viljað svara spurningum fjölmiðla, hvorki fyrir né eftir að yfirlýsingarnar voru sendar út.
Í yfirlýsingu frá biskupi segir meðal annars að viðtalið hafi vakið upp mikla sorg, reiði og harm í huga þjóðarinnar og framkoma Guðrúnar Ebbu hafi vakið aðdáun vegna þess kjarks, virðingar og yfirvegunar sem hún sýndi.
„Við erum öll í sársaukafullu lærdómsferli. Það er harmsefni að erindi Guðrúnar Ebbu til Kirkjuráðs 2009 hafi ekki verið svarað strax skriflega og hefur biskup beðist afsökunar á því í ræðu og riti og persónulega. Það skal þó skýrt tekið fram að vangá við skráningu erindis hennar hafði ekki áhrif á málsmeðferðina,“ segir í yfirlýsingunni, sem er undirrituð af Karli, Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, vígslubiskupi á Hólum, og Kristjáni Vali Ingólfssyni, vígslubiskupi í Skálholti.
Kristján Valur vill ekki tjá sig persónulega um málið að öðru leyti en því sem fram kom í yfirlýsingunni.
„Sem hluti af biskupsembættinu tel ég að ég eigi ekki að tjá mig ef biskup Íslands hefur ákveðið að tjá sig ekki að öðru leyti en í gegnum fréttatilkynningu,“ segir Kristján Valur.
„Þessi mál eru í farvegi. Mér finnst það ekki á nokkurn hátt tímabært að tjá mig meira.“
Spurður hvort hann telji að Karl Sigurbjörnsson eigi að segja af sér svarar Kristján Valur:
„Biskup á allavega ekki að segja af sér fyrir það sem Ólafur Skúlason hefur gert.“
Ekki náðist í Jón Aðalstein Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum.
- sv
Harmsaga að málinu hafi ekki verið svarað strax
