Innlent

Óttast þyngri róður hjá fjölskyldum

Valdimar Svavarsson oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
Valdimar Svavarsson oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði Hafnarfjarðar segjast hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðum breytingum og tekjutengingu leikskólagjalda í bænum.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu ákvað meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna í bæjarstjórn að afnema afslátt til einstæðra foreldra og námsmanna vegna vistunar leikskólabarna umfram átta stundir á dag. Hins vegar á að veita afslátt til þeirra tekjulægstu. Breytingin tekur gildi 1. mars en aðferðin við tekjutenginguna hefur ekki verið útfærð.

„Þetta veldur óvissu og áhyggjum í hópi foreldra og starfsfólks enda um umtalsverða breytingu á kjörum og afkomu þessara hópa að ræða. Nú þegar fara tekjutengingar vaxandi í skattkerfi og velferðarkerfi landsmanna og róðurinn þyngist sífellt hjá þeim fjölskyldum í Hafnarfirði sem ná að auka við sig vinnu til að ná endum saman," bóka sjálfstæðismenn í bæjarráði sem vilja að óvissunni sé eytt.

Fulltrúar meirihlutans segja að nú sé horfið frá því að miða afslátt við ákveðna þjóðfélagshópa. Í staðinn ráði tekjur fjölskyldna hvort þær njóti afsláttarkjara. „Þannig er þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru beint til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Þetta teljum við réttlátara fyrirkomulag," bóka fulltrúar meirihlutans og upplýsa að verið sé að leggja lokahönd á viðmiðunarreglur. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×