Innlent

Leita enn gagna vegna Kaupþings í útlöndum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kaupþing í Lúxemborg Svona voru höfuðstöðvar Kaupþings í Lúxemborg merktar í ársbyrjun 2008, en þar er nú til húsa Banque Havilland.
Kaupþing í Lúxemborg Svona voru höfuðstöðvar Kaupþings í Lúxemborg merktar í ársbyrjun 2008, en þar er nú til húsa Banque Havilland. fréttablaðið/BÞS
Lögregla leitaði gagna í þremur fyrirtækjum og á tveimur heimilum í Lúxemborg í gær. Leitirnar voru að beiðni efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (SFO, Serious Fraud Office) og embættis sérstaks saksóknara á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu sem SFO sendi frá sér í gær.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði lítið hægt að gefa upp um rannsóknina á meðan hún stæði yfir. Hann kvað aðgerðina hins vegar nokkuð umfangsmikla, ljóst væri að aðgerðirnar lögreglu sem hófust í gær myndu að minnsta kosti teygja sig fram til dagsins í dag. Ólafur, sem staddur er úti í Lúxemborg og tekur þátt í aðgerðunum, vildi ekki gefa upp hvort leitað yrði víðar.

Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 í gær snýr rannsóknin að 28 milljarða króna láni sem Kaupþing lánaði félagi á Tortóla-eyju sama dag og bankinn fékk 80 milljarða lán hjá Seðlabanka Íslands sem átti að bjarga rekstri Kaupþings.

Alls eru sjö starfsmenn embættis sérstaks saksóknara lögreglu í Lúxemborg til aðstoðar, en ámóta margir komu frá SFO í Bretlandi. Í tilkynningu sem embætti sérstaks saksóknara sendi frá sér í gær kemur fram að 55 lögreglumenn frá lögreglunni í Lúxemborg hafi tekið þátt í húsleitunum. Alls koma því um 70 manns að aðgerðunum.

Tiltekið er í tilkynningu SFO að húsleitirnar tengist rannsókn á hruni Kaupþings banka, en meðal annars var leitað í fyrrum höfuðstöðvum bankans í Lúxemborg, en þar er nú til húsa Banque Havilland. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér er áréttað að leitin tengist ekki bankanum heldur starfsemi Kaupþings banka fyrir daga Banque Havilland.

Auk rannsóknar sérstaks saksóknara stendur SFO fyrir sjálfstæðri rannsókn. Fram kemur í tilkynningu sérstaks saksóknara að framkvæmdar hafi verið tvær húsleitir á grundvelli réttarbeiðna frá embættinu. „Aðgerðirnar varða rannsóknir sérstaks saksóknara á málum er tengjast Kaupþingi banka, en sökum þess hve rannsóknirnar eru á viðkvæmu stigi er ekki unnt að gefa nánari upplýsingar um þau mál sem hér um ræðir,“ segir í tilkynningu sérstaks saksóknara.

Aðgerðirnar í gær koma í framhaldi af aðgerðum lögregluyfirvalda í Lundúnum og Reykjavík 9. og 10. þessa mánaðar þegar níu manns, þar á meðal fyrrverandi stjórnendur Kaupþings og viðskiptamennirnir Vincent og Robert Tchenguiz, voru færðir til yfirheyrslu vegna lánamála Kaupþings.

Ólafur Þór Hauksson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×