Erlent

Japanskir sjómenn óttast um lifibrauð sitt

Þessir sjómenn í bænum Iwaki, skammt frá Fukushima í norðvesturhluta Japans, voru heldur vondaufir í gær. Mynd/AP
Þessir sjómenn í bænum Iwaki, skammt frá Fukushima í norðvesturhluta Japans, voru heldur vondaufir í gær. Mynd/AP
Sjómenn í Fukushima, sem margir hverjir misstu bæði heimili sitt og fiskibáta, óttast nú að geislamengun í hafinu muni eyðileggja lifibrauð þeirra. „Jafnvel þótt stjórnin segi að fiskurinn sé öruggur, þá mun fólk ekki vilja kaupa fisk frá Fukushima," segir Ichiro Yamagata, sjómaður sem bjó í næsta nágrenni við kjarnorkuverið í Fukushima.

„Sennilega getum við ekki veitt fisk næstu árin."

Geislamengun bæði í vatni við verið og í hafinu fyrir utan hefur mælst mjög há síðustu daga. Geislavirkt vatn hefur lekið úr verinu, en ekki hefur tekist að finna nákvæmlega hvar lekinn á upptök sín.

Geislavirkni hefur einnig fundist í fiski, sem veiðst hefur þar út af ströndinni, jafnvel yfir nýjum hættumörkum, en stjórnvöld hækkuðu mörkin nú í vikunni.

Japanar flytja reyndar inn meira af fiski en þeir flytja út, en engu að síður seldu þeir sjávarafurðir úr landi fyrir 265 milljarða króna á síðasta ári.

Indverjar sögðust í gær hafa bannað innflutning á fiski frá Japan í þrjá mánuði, eða þangað til hættan er talin liðin hjá.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×