Erlent

Gbagbo hrökklast frá völdum

Liðsmenn Ouattaras komnir inn í Abidja, þar sem Gbagbo hafði hreiðrað um sig í kjallarabyrgi.
Mynd/Nordicphotos-AFP
Liðsmenn Ouattaras komnir inn í Abidja, þar sem Gbagbo hafði hreiðrað um sig í kjallarabyrgi. Mynd/Nordicphotos-AFP
Laurent Gbagbo hafði hreiðrað um sig í kjallarabyrgi ásamt fjölskyldu sinni í gær, umkringdur herliði andstæðinga sinna, en neitaði fram á síðustu stundu að semja um brotthvarf sitt frá völdum. Stjórnarherinn var hættur að berjast gegn liði uppreisnarmanna en leiðtogi þeirra lagði áherslu á að hann kæmist frá átökunum lifandi.

Gbagbo hefur verið forseti Fílabeinsstrandarinnar í áratug, en tapaði í forsetakosningum í nóvember. Hann neitaði að viðurkenna þau úrslit, þótt bæði Sameinuðu þjóðirnar og Afríkubandalagið segi ekkert athugavert við framkvæmd kosninganna.

Sigurvegari kosninganna, Alassane Ouattara, reyndi lengi vel að fá hann til að láta af völdum með friði. Leiðtogar nágrannaríkjanna fóru sömuleiðis margsinnis á fund hans til að semja um málið.

Frakkar settu Gbagbo þau skilyrði í gær, að hann myndi undirrita staðfestingu þess að hann hafi látið af völdum og viðurkenna Ouattara sem eftirmann sinn í embætti.

Hann hafnaði þeim skilyrðum í gærkvöld. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×