Innlent

Mannslimurinn loks afhjúpaður á safninu

Fjöldi manns var samankominn til að líta nýjasta djásn Reðasafnsins þegar mannslimurinn var afhúpaður við hátíðlega athöfn í gær. 
FRÉTTABLAÐIÐ/ÖRYGUR HNEFILL
Fjöldi manns var samankominn til að líta nýjasta djásn Reðasafnsins þegar mannslimurinn var afhúpaður við hátíðlega athöfn í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/ÖRYGUR HNEFILL
Hið íslenzka reðasafn hefur nú afhjúpað fyrsta karlmannsliminn. Eins og kunnugt er ánafnaði Páll Arason, ferðafrömuður og athafnamaður úr Hörgárdal, safninu lim sinn að sér gengnum.

Sigurður Hjartarson reðurstofustjóri er afar ánægður með nýjustu viðbót safnsins.

„Mér finnst gripurinn frábær. Þetta er fyrsta mannseintakið sem ég eignast og það af frægum manni, háöldruðum," segir Sigurður. „Þetta er glæsilegt eintak. En ég veit þó ekki hvaða mat konur leggja á glæsileg eintök. En þær verða bara að koma að sjá þetta og bera liminn saman við þá sem þær hafa séð og leggja sitt mat á málið," segir Sigurður.

Páll hét safninu getnaðarlim sínum árið 1996 og varð úr því mikið fjölmiðlafár. Pétur Pétursson, læknir á Akureyri, undirritaði samning þar sem fram kom að hann myndi framkvæma aðgerðina eftir andlát Páls, sem undirritaði skjalið einnig í viðurvist votta.

Um fimmtíu manns voru boðnir á frumsýningu á limi Páls í gær, en Pétur afhjúpaði gripinn, eins og samningurinn sagði til um. Páll hefur verið heiðurslimur safnsins frá því að hann útnefndi safninu getnaðarfæri sín, en hann lést 5. janúar síðastliðinn, þá 95 ára að aldri.

„Ég vona að þetta eigi eftir að gera mikið fyrir safnið," segir Sigurður. „Þetta á að minnsta kosti ekki eftir að draga úr aðsókninni."

Sigurður hefur fengið þrjá samninga til viðbótar frá mönnum sem vilja gefa safninu lim sinn, einum Breta, einum Þjóðverja og einum Bandaríkjamanni. Sigurður segir þann bandaríska hafa lýst yfir gremju sinni yfir því að hafa ekki náð því að eiga fyrsta karlmannsliminn á safninu. „Hann ætlaði bara að gefa hann á meðan hann var enn á lífi," segir Sigurður.

Hið íslenzka reðasafn hefur fengið um 11 þúsund gesti á síðustu tveimur sumrum og er orðið eitt af vinsælustu ferðamannastöðunum á Húsavík. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×