Innlent

Of langur tími líður að skýrslutöku

Mynd/Stefán
Oft líða þrjár til fjórar vikur frá því að börn greina frá kynferðislegu ofbeldi þangað til skýrslutökur hefjast. Slíkt er of langur tími fyrir lítil börn sem eiga erfitt með að greina rétt frá atvikum eftir slíkan tíma. Mjög mikilvægt er að hraða skýrslutökum hjá þeim hópi og að fagaðili tali við þau eins fljótt og auðið er.

 

Er þetta mat Þorbjargar Sveinsdóttur, sem hefur nýlokið umfangsmikilli rannsókn á tengslum dóma í kynferðisbrotamálum gegn börnum og framburði þolenda. Einungis var dæmt í 16 prósentum mála sem vörðuðu yngsta aldurshópinn, þriggja og hálfs árs til fimm ára, eins og greint var frá í Fréttablaðinu í vikunni. Þorbjörg skoðaði framburði 285 barna upp í átján ára aldur, yfir fimm ára tímabil.

 

„Það er mjög mikilvægt að þekkja annmarka og styrkleika þessara litlu barna og að taka fullt tillit til þeirra getu,“ segir Þorbjörg. „Áföll geta haft hamlandi áhrif á minnisgetu sem gerir það að verkum að þau eru stundum ekki hæf til þess að segja skýrt og rétt frá því sem henti þau.“

 

Þorbjörg segir að mikilvægt sé að gæta þess að utanaðkomandi tali ekki mikið við börnin um atvikin áður en skýrslutaka fari fram. Þau geti þannig upplifað sem þau séu alfarið búin að greina frá málinu og loki þar með á það. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×