Innlent

Vélhjólagengi ætlar að láta greipar sópa í skotvopnaverslun

Gengið er talið hafa ætlað að vopnvæðast með því að brjótast inn í byssubúð. Myndin er úr Sportbúðinni.
Fréttablaðið/eyþór
Gengið er talið hafa ætlað að vopnvæðast með því að brjótast inn í byssubúð. Myndin er úr Sportbúðinni. Fréttablaðið/eyþór
Lögregla lét verslanir á landinu sem selja skotvopn nýlega vita af því að hún teldi hérlent vélhjólagengi ætla að komast yfir slík vopn með ólöglegum hætti. Voru verslunareigendur hvattir til að huga sérstaklega að öryggismálum sínum vegna þessa.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins áskotnuðust lögreglunni upplýsingar um að annað vélhjólagengjanna sem hér eru starfrækt ætlaði innan skamms að vígbúast með því að láta greipar sópa í skotvopnaverslun að nóttu til.

Með þessar upplýsingar að vopni ætlaði lögreglan að grípa þjófana glóðvolga við innbrotið og hafði gert ráðstafanir til þess að svo mætti verða, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Meðal annars var setið um verslanirnar.

Morgunblaðið fjallaði um málið á forsíðu sinni í gær. Heimildarmaður Fréttablaðsins sagði að lögregla teldi að fréttin myndi líklega styggja við hópnum svo hann léti ekki verða af verkinu. Það væri í sjálfu sér ekki slæmt ef það leiddi til þess að mennirnir kæmust ekki yfir vopn með þessum hætti, en á hinn bóginn hefði lögregla bundið talsverðar vonir við að standa þá að verki. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×