Erlent

BRICS-löndin vilja meiri völd

Leiðtogar BRICS-landanna kalla eftir umbótum á regluverki alþjóðaviðskipta. Hér sjást þau Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, og starfsbróðir hennar frá Suður-Afríku, Jacob Zuma. Fréttablaðið/AP
Leiðtogar BRICS-landanna kalla eftir umbótum á regluverki alþjóðaviðskipta. Hér sjást þau Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, og starfsbróðir hennar frá Suður-Afríku, Jacob Zuma. Fréttablaðið/AP
Leiðtogar upprennandi stórvelda í hinu alþjóðlega efnahagslífi, BRICS-landanna svokölluðu (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka), kalla eftir umbótum í regluverki alþjóðaviðskiptakerfisins og segjast munu styðja aðgerðir til að auka stöðugleika í alþjóðlegu efnahagslífi. Auk þess horfa þau til þess að minnka vægi Bandaríkjadalsins sem aðalgjaldmiðils heimsins.

 

Þetta var meðal þess sem kom fram á leiðtogafundi ríkjanna á fimmtudag. Þetta var í fyrsta sinn sem Suður-Afríka sækir fundinn, en landið var formlega tekið inn í þennan lausbyggða félagsskap við þetta tilefni.

 

Löndin fimm eiga það sammerkt að hafa vaxið fiskur um hrygg síðustu ár sökum kröftugs efnahagslegs uppvaxtar. Fyrstu fjögur löndin hafa síðustu ár verið að móta nánara samstarf með það fyrir augum að jafna valdahlutföll í alþjóðlegum viðskiptastofnunum líkt og Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Hafa þau fengið ýmsu áorkað að því leyti og til merkis um það er jöfnun atkvæðaréttar innan AGS og útvíkkun hóps helstu iðnvelda heimsins úr G8 upp í G20, þar sem öll fimm BRICS-löndin eiga nú sæti.

 

Löndin telja ekki að núverandi kerfi þjóni tilgangi þeirra, og í ályktun eftir fundinn á fimmtudaginn sagði meðal annars:

 

„Við köllum eftir því að hinar fyrirhuguðu umbætur á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem voru ákveðnar á síðustu fundum G20-landanna, verði að veruleika sem fyrst og ítrekum að stjórnarhættir alþjóðafjármálastofnana ættu að endurspegla breytingar í efnahagslífi heimsins með því að raddir þróunarlanda og upprennandi efnahagsvelda heyrist frekar.“

Þá mælast löndin til þess að hin svokölluðu Sérstöku dráttarréttindi (SDR), eins konar gjaldmiðill AGS sem stundum er notaður í viðskiptum milli ríkja, verði notaður í auknum mæli.

 

Löndin hyggjast auka enn á samstarf sitt á komandi árum, meðal annars á sviðum íþrótta og menningar.

 

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×