Erlent

Sex til níu mánuðir í viðbót

stöðva geislavirkni Starfsmenn kjarnorkuversins í Fukushima reyna að koma í veg fyrir að geislavirknin dreifist út.
stöðva geislavirkni Starfsmenn kjarnorkuversins í Fukushima reyna að koma í veg fyrir að geislavirknin dreifist út.
Stjórnendur kjarnorkuversins Fukushima Dai-ichi í Japan telja að það taki sex til níu mánuði að stöðva geislavirknilekann þar og að kæla niður kjarnaofnana.

Vonir standa til að eftir það geti þeir tugir þúsunda manna sem þurftu að flýja nærliggjandi svæði af ótta við geislavirkni snúið aftur til heimkynna sinna. Þessi langi tími hefur ekki fallið vel í kramið hjá flóttafólkinu. „Þetta ár er tapað,“ sagði Kenji Matsueda, sem býr í flóttamannaskýli í Fukushima eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt sem er tuttugu kílómetrum frá kjarnorkuverinu. „Ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að gera. Níu mánuðir eru langur tími og þetta gæti tekið lengri tíma. Ég held að þeir viti í raun og veru ekki hversu langur tíminn verður.“

Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld í Japan og rekstraraðila kjarnorkuversins, Tokyo Electric Power Company, að leysa úr eftirköstum versta kjarnorkuslyss Japans sem varð 11. mars síðastliðinn. Þá fór rafmagn af í kjarnorkuverinu í Fukushima og kælikerfi þess urðu óstarfhæf eftir að jarðskjálfti skók landið með tilheyrandi flóðbylgju.

Til að sýna samstöðu með Japönum heimsótti Hillary Rodham Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Tókýó í gær og drakk te með keisaranum og keisaraynjunni. Um 28 þúsund manns hafa fundist látnir eða er saknað vegna flóðbylgjunnar í landinu. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×