Erlent

Óhugnanlegt níð gegn níu börnum

Danska lögreglan fékk fyrstu tilkynninguna um fjölskylduna árið 2006. Fréttablaðið/hari
Danska lögreglan fékk fyrstu tilkynninguna um fjölskylduna árið 2006. Fréttablaðið/hari
Réttarhöld yfir dönskum hjónum sem misþyrmdu og vanræktu níu börn sín standa nú yfir. Hjónin bjuggu síðast með börn sín í niðurníddu húsi í bænum Brønderslev á Norður-Jótlandi. Þau eru sökuð um að hafa misþyrmt börnum sínum kynferðislega, þá helst elstu dótturinni sem er 21 árs gömul, og látið börnin búa við algjörlega óviðunandi aðstæður. Elsta dóttirin tilkynnti málið til yfirvalda á síðasta ári. Hjónin neita bæði sök.

Málið er talið hið alvarlegasta sinnar tegundar sem upp hefur komið í Danmörku, en mikið hefur verið fjallað um réttarhöldin í dönskum fjölmiðlum. Börnin níu höfðu verið látin ganga um berfætt og þeim misþyrmt gróflega með bareflum. Lögreglumenn sem komu á vettvang hafa lýst þeim hræðilegu aðstæðum sem börnin voru látin búa við og sögðu að heimilið hefði angað af saur og hlandi. Hvergi hefði verið pláss fyrir börnin til að leika sér og eldhúsið hefði verið uppfullt af rusli og óhreinindum. Heimilishundur hefði gert þarfir sínar innandyra og hvergi hefði verið að sjá fóður eða vatn handa honum.

Fimm dauðir hestar fundust við húsið og höfðu hræin verið étin af rottum og músum. Tveir hestar til viðbótar fundust á lífi, en voru afar hætt komnir sökum vannæringar og vanrækslu. Lögreglan fékk fyrstu tilkynningarnar um fjölskylduna árið 2006. Hjónin höfðu þá flust á milli bæjarfélaga til að forðast inngrip frá yfirvöldum. Þau voru þó ekki handtekin fyrr en á síðasta ári. Búist er við því að aðalmeðferð gegn hjónunum standi fram í næstu viku.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×