Erlent

Mannfjöldinn krafðist hefndar

Fjölmenni var við útför sonar Gaddafís í Trípolí í gær.
Fréttablaðið/AP
Fjölmenni var við útför sonar Gaddafís í Trípolí í gær. Fréttablaðið/AP
Meira en tvö þúsund Líbíumenn komu saman í Trípolí í gær við útför næstyngsta sonar Múammars Gaddafís og þriggja barna hans í gær. Mikil reiði var í mannfjöldanum, sem krafðist hefndar.

Seif al-Arab, sonur Gaddafís Líbíuleiðtoga, féll í árás NATO á hús í Trípolí á laugardagskvöld. Börnin þrjú létust einnig, en Gaddafí sjálfur slapp þótt hann hafi verið í húsinu. Elsta barnið var tveggja ára en það yngsta hálfs árs.

Rússnesk stjórnvöld hafa gagnrýnt árásina og Suður-Afríkustjórn sömuleiðis. Rússar krefjast þess að vopnahlé hefjist án tafar. NATO neitar því að tilgangur árásarinnar hafi verið sá, að ráða Gaddafí af dögum.

Tveir aðrir synir Gaddafís, þeir Seif al-Islam og Mohammed, voru viðstaddir útförina, en Gaddafí sjálfur var fjarverandi. Liðsmenn Gaddafís hafa haldið áfram að varpa sprengjum á borgina Misrata, sem er skammt frá Trípolí, en hundruð manna hafa fallið þar síðustu vikurnar.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×