Erlent

Kosið um nýtt kosningakerfi í Bretlandi

Leiðtogar stjórnarflokkanna eru ekki sammála um ágæti breytinganna sem bornar verða undir kjósendur í dag. nordicphotos/AFP
Leiðtogar stjórnarflokkanna eru ekki sammála um ágæti breytinganna sem bornar verða undir kjósendur í dag. nordicphotos/AFP
Kosið verður í Bretlandi í dag um breytingar á kosningakerfinu, sem notað er í þingkosningum. Samkvæmt skoðanakönnunum er vart von til þess að breytingarnar verði samþykktar.

Kosningakerfið sem borið er undir kjósendur í dag er svipað því sem notað var við stjórnlagaþingskosningarnar hér á landi á síðasta ári. Í báðum kerfunum eru atkvæði frambjóðenda sem ná ekki kjöri flutt yfir á aðra frambjóðendur en í kerfinu sem Bretar kjósa um í dag eru umframatkvæði þeirra frambjóðenda sem ná kjöri einnig flutt yfir á aðra frambjóðendur.

Gamla kerfið, sem notað hefur verið áratugum saman, er mun einfaldara. Þar hlýtur einfaldlega sá frambjóðandi, sem flest atkvæði fær, þingsætið í sínu kjördæmi.

Áfram verður kosið í einmenningskjördæmum, en breytingin, verði hún samþykkt, er líkleg til að koma smærri flokkum til góða. Stóru flokkarnir tveir, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, sem hafa grætt á núverandi kerfi, munu því væntanlega fá færri þingmenn og oftar þurfa að reiða sig á stjórnarsamstarf með öðrum flokkum.

Bresku stjórnarflokkarnir eru á öndverðum meiði um ágæti kosningakerfanna. Íhaldsflokkurinn, með David Cameron forsætisráðherra í fararbroddi, vill halda í gamla kerfið en Frjálslyndi flokkurinn, með Nick Clegg utanríkisráðherra í fararbroddi, vill breytingar.

Stjórnarandstaðan er einnig klofin í málinu, því þótt Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, vilji breytingar stendur flokkurinn ekki einhuga að baki honum í þessu máli.

Þeir Clegg og Miliband segja núverandi kerfi vera ósanngjarnt, sérstaklega nú þegar kjósendur hafi sterkari tilhneigingu en áður til að greiða smærri flokkum atkvæði sitt.

Þetta hefur breyst töluvert, því fyrir hálfri öld kusu 95 prósent breskra kjósenda annað hvort Verkamannaflokkinn eða Íhaldsflokkinn, en undanfarið hafa 35 prósent kjósenda kosið aðra flokka – og flestir þeirra reyndar Frjálslynda flokkinn.

Þeir sem vilja halda í gamla kerfið segja hins vegar að nýja kerfið verði allt of flókið og kosningaúrslitin verði ekki jafn skýr. Samsteypustjórnir verði algengari þar sem flokkarnir geti ekki staðið við þá stefnu sem þeir boðuðu fyrir kosningar.

Í dag er einnig kosið til þings í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi, auk þess sem kosið verður til sveitarstjórna í Englandi.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×