Innlent

Þurfa að fjölga starfsfólki mikið

Margir þurfa að sameinast um vinnslu síldar og makríls á Vopnafirði í sumar og haust. mynd/hermann
Margir þurfa að sameinast um vinnslu síldar og makríls á Vopnafirði í sumar og haust. mynd/hermann
Undirbúningur fyrir komandi síldar- og makrílvertíðar er í fullum gangi hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði og fyrirsjáanleg er mikil fjölgun starfsmanna í sumar og fram eftir hausti. Fastráðnir starfsmenn í frystihúsinu eru að jafnaði um fjörutíu talsins en í sumar munu á annað hundrað manns taka þátt í fiskvinnslunni á staðnum, segir í frétt á vef fyrirtækisins.

Þótt ekki hafi verið auglýst eftir starfsfólki til að standa vaktina í sumar og fram eftir hausti hafa nú þegar um 115 umsóknir um störf borist HB Granda á Vopnafirði. Unglingar á Vopnafirði og í nærsveitum fengu í fyrrasumar sumarvinnu í frystihúsinu en þá hafði slík vinna ekki staðið þessum aldurshópi til boða í áratugi.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra hjá HB Granda, ganga heimamenn fyrir um vinnu og einnig þeir sem fengið geta gistingu hjá vinum og vandamönnum meðan á vertíðinni stendur. Þrátt fyrir það þurfi félagið örugglega að leigja húsnæði á Vopnafirði fyrir um fimmtán til tuttugu manns í sumar og fram á haustið. Stefnt er að því að skip HB Granda fari til veiða á síld og makríl í byrjun júní. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×