Erlent

Evrópulöndin vilja halda forstjórastólnum

Allt stefnir í harða keppni um forstjórastól AGS þegar Dominique Strauss-Kahn hverfur úr embætti.
Allt stefnir í harða keppni um forstjórastól AGS þegar Dominique Strauss-Kahn hverfur úr embætti.
Evrópulöndin innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) róa nú að því öllum árum að halda yfirráðum sínum yfir forstjórastól sjóðsins. Núverandi forstjóri, Dominique Strauss-Kahn, er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hann hafi beitt starfsstúlku á hóteli í New York kynferðislegu ofbeldi og efast er um að hann eigi afturkvæmt í embættið.

 

Óformlegt samkomulag hefur gilt um árabil þar sem Evrópa hefur átt stól forstjóra AGS vísan á meðan Bandaríkjamenn hafa setið að forstjórastóli Alþjóðabankans. Nú hafa hins vegar heyrst háværar raddir frá þeim ríkjum þar sem hagvöxtur hefur verið hvað öflugastur undanfarið um að breyting verði á. Þar hafa talsmenn Brasilíu og Suður-Afríku talað fyrir því að næsti forstjóri komi frá einhverju þróunarlandanna.

 

Það er þó talið háð því að lönd utan Evrópu komi sér saman um einn umsækjanda.

Meðal þeirra sem líklegri þykja til að hreppa hnossið er Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, en Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefur einnig borið víurnar í stöðuna. Hann hefur þó ekki stuðning bresku stjórnarinnar, sem hefur ekkert gefið út um afstöðu sína. Bretar útiloka ekki að styðja umsækjanda frá þróunarlandi en David Cameron forsætisráðherra segist með ánægju munu styðja sterkan umsækjanda frá Evrópu.

 

John Lipsky, næstráðandi Strauss-Kahn, gegnir stöðu forstjóra AGS um stundarsakir, en hyggst ekki gefa kost á sér til starfans.-þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×