Erlent

Ráðherra ber við mismælum um nauðganir

Mynd/
Mynd/ AFP
Stjórnarandstæðingar í Bretlandi hafa kallað eftir afsögn Kenneths Clarke dómsmálaráðherra vegna ummæla sem hann lét falla í útvarpsviðtali í gærmorgun. Þar mátti skilja á orðum ráðherra að hann teldi ekki allar nauðganir falla undir skilgreininguna „alvarlegar nauðganir“.

 

Í frétt á vef BBC segir að Clarke hafi í viðtalinu rætt um tillögur um að lækka beri fangelsisdóma um helming ef ákærðir játa án undanbragða. Spyrill spurði hann þá út í nauðganir, þar sem meðaldómur er að meðaltali fimm ár. Þar bar Clarke brigður á umræddar tölur og sagði: „Þarna erum við líka að tala um stefnumótanauðganir, þegar 17 ára einstaklingur á samræði við 15 ára.“ Hann bætti svo við: „Alvarlegar nauðganir, þar sem ofbeldi er beitt og gegn vilja konunnar – dómar eru lengri í þeim tilfellum.“

 

Mikið orðastríð fór í kjölfarið af stað þar sem Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hvatti Clarke til að segja af sér því að hann gæti ekki setið í umboði kvenna eftir þessi ummæli. Clarke neitar að hafa sagt nokkuð sem kallar á afsögn. Hann hafi þó misskilið hugtakið „stefnumótanauðgun“ og talið það eiga við þar sem samræði er með vilja beggja aðila, þó að annar þeirra sé undir lögaldri.

 

„Mín skoðun er sú að allar nauðganir séu alvarlegur glæpur og hafi ég gefið annað í skyn, þá hef ég mismælt mig,“ sagði Clarke.

 

Talsmaður forsætisráðherra sagði það leitt ef orð Clarkes hefðu sært einhverja, en hann nyti enn fulls trausts. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×