Erlent

Deilt um endastöð kjarnorkuúrgangs

Á hverju ári er mikill viðbúnaður þegar úrgangi úr kjarnorkuverunum er safnað saman og hann fluttur með lest til Gorlebens. Þessum tilfæringum fylgja jafnan fjölmenn og oft harðskeytt mótmæli. Nordicphotos/AFP
Á hverju ári er mikill viðbúnaður þegar úrgangi úr kjarnorkuverunum er safnað saman og hann fluttur með lest til Gorlebens. Þessum tilfæringum fylgja jafnan fjölmenn og oft harðskeytt mótmæli. Nordicphotos/AFP
„Við þurfum skammtímalosunarstað, og það strax,“ segir þýski jarðfræðingurinn Frank Schilling í viðtali við tímaritið Der Spiegel um kjarnorkuúrgang, sem fellur til úr kjarnorkuverum landsins.

 

Þjóðverjar hafa áratugum saman reynt að koma sér saman um varanlegan losunarstað fyrir úrganginn, sem væri örugg geymsla til eilífðar, eða svo gott sem. Ekki sér fyrir endann á þeim deilum og á meðan er úrgangurinn geymdur í gömlum saltnámum við bæinn Gorleben.

 

Shilling segir það engan veginn verjanlegt að geyma úrganginn öðruvísi en að urða hann í jörðu. Þýsk stjórnvöld stefna að því að varanlegur geymslustaður verði tilbúinn innan 30 til 50 ára. Sá staður á að endast um ófyrirsjáanlega framtíð, en Schilling segir betra að finna öruggan stað til skemmri tíma.

 

„Frekar ætti að fá öruggan losunarstað til skemmri tíma, til dæmis til 500 ára, heldur en að halda áfram að geyma úrganginn til bráðabirgða á óöruggum stað á yfirborði jarðar,“ er haft eftir honum í Der Spiegel.

 

Fyrir um það bil áratug, meðan Sósíaldemókratar og Græningjar voru saman í ríkisstjórn Þýskalands, var tekin ákvörðun um að hætta smám saman allri kjarnorkuvinnslu í landinu. Gerð var áætlun um að loka síðasta kjarnorkuverinu árið 2022, en seint á síðasta ári, þegar hægri stjórn Angelu Merkel var komin til valda, var ákveðið að fresta því um áratug þannig að síðasta kjarnorkuverinu yrði ekki lokað fyrr en 2032.

Þetta snarbreyttist eftir kjarnorkuslysið í Japan nú í mars og ákvað Merkel þá að hraða áætlun um lokun kjarnorkuvera í staðinn fyrir að draga það verk á langinn.

 

Eftir stendur þó sá vandi, hvað gera skuli við kjarnorkuúrganginn, sem safnast hefur upp síðustu áratugi og heldur áfram að vera stórhættulegur í milljónir ára.

Þjóðverjar eru engan veginn eina þjóðin sem veit ekki hvað hún á að gera við kjarnorkuúrganginn. Bandaríkjamenn og Japanar eiga nú í viðræðum við Mongólíustjórn um hugsanlega geymslu kjarnorkuúrgangs.

 

Í Bandaríkjunum hafa lengi staðið deilur um áform um að setja upp geymslu fyrir kjarnorkuúrgang á Yucca-fjalli í Nevada, skammt frá landamærum Kaliforníu.

Í Ástralíu hafa harðar deilur staðið um geymslu kjarnorkuúrgangs í Norðurhéraðinu, þar sem landeigendur segjast ekki hafa verið hafðir með í ráðum.

 

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×