Innlent

Evrópubúar sameinist gegn kynbundnu ofbeldi

Skilafrestur í keppnina rennur út 31. maí næstkomandi.
Skilafrestur í keppnina rennur út 31. maí næstkomandi.
Auglýst er eftir framlögum þessa dagana í samevrópska auglýsingakeppni sem miðar að því að uppræta hvers kyns ofbeldi gegn konum. Í fyrstu verðlaun eru fimm þúsund evrur sem jafngilda 824 þúsund krónum. Að keppninni stendur UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (SÞ) fyrir Vestur-Evrópu, í samvinnu við jafnréttisstofnun SÞ en skilafrestur í hana rennur út 31. maí.

 

Á síðasta ári héldu SÞ sams konar keppni gegn fátækt en þá bar Íslendingurinn Stefán Einarsson, hönnunarstjóri hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, sigur úr býtum. Stefán er meðlimur í dómnefnd að þessu sinni.

 

„Það var skemmtilegt fyrir mig sem Íslending, þegar Stefán vann sams konar keppni í fyrra og ég sé enga ástæðu til að íslenskir hönnuðir láti ekki til sín taka að þessu sinni. Það er enn tæpur hálfur mánuður til stefnu og það hafa aldrei þótt rök á Íslandi að lítill tími sé til stefnu!“ segir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá SÞ, um keppnina.

Rúmlega tvö þúsund framlög bárust í keppnina í fyrra og þegar hafa borist rúmlega átta hundruð auglýsingar frá 37 ríkjum í ár.

 

Þátttökurétt hafa allir Evrópubúar en tilkynnt verður um sigurvegara 25. nóvember á Alþjóðlegum baráttudegi til upprætingar ofbeldis gegn konum.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×