Innlent

Hafna þúsundum unglinga

Færri ungmenni fá bæjarvinnu í sumar en vilja.
fréttablaðið/anton Brink
Færri ungmenni fá bæjarvinnu í sumar en vilja. fréttablaðið/anton Brink
Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Kópavogsbær veita ekki öllum ungmennum sumarvinnu sem sótt hafa um.

Alls sóttu um 3.800 á aldrinum 17 ára og eldri um sumarvinnu hjá borginni, álíka margir og í fyrra að sögn Lárusar Rögnvaldar Haraldssonar, atvinnuráðgjafa hjá Hinu húsinu. „Í fyrra fengu allt að 1.500 vinnu í styttri eða lengri tíma en í ár er ætlunin að ráða 1.900. Þeir sem eru 17 ára fá vinnu í fjórar vikur en eldri í sex til átta vikur og er miðað við fullan vinnudag í flestum tilfellum,“ segir Lárus.

Þar sem 400 námsmenn voru án vinnu í fyrrasumar og fengu fjárhagsaðstoð frá borginni var ákveðið að þeir skyldu njóta forgangs nú, að því er Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi hefur greint frá.

Fjórtán ára unglingar fá ekki inni í Vinnuskólanum í sumar en allir 15 og 16 ára sem skráðu sig fá vinnu, að sögn Magnúsar Arnars Sveinbjörnssonar skólastjóra. „Þetta eru alls rúmlega tvö þúsund krakkar. Fimmtán ára fá vinnu hálfan daginn í þrjár vikur en 16 ára fá vinnu allan daginn í þrjár vikur. Tímabilið í fyrra var fjórar vikur.“

Í Hafnarfirði sóttu um 800 ungmenni 17 ára og eldri um vinnu. Rúmlega 300 fengu. „Tímabilið er sex til sjö vikur og er almennt um fulla vinnu að ræða á tímabilinu,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi. Hún getur þess að um 900 unglingar á aldrinum 14 til 16 ára, eða allir sem sóttu um, fái vinnu í sex vikur í nokkrar stundir á dag.

Af þeim 1.100 ungmennum 17 ára og eldri sem sóttu um hjá Kópavogsbæ fengu 600 vinnu í fimm til átta vikur miðað við fullan vinnudag. Af þessum 1.100 sóttu 500 um almenn störf í áhaldahúsi og garðyrkju og fengu 255 vinnu. „Þessi 500 manna hópur var allur jafnvígur og til þess að tryggja að allir sætu við sama borð var dregið úr hópnum,“ segir Arna Schram, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar. Yngri aldurshóparnir fá allir vinnu í nokkra tíma á dag í sex vikur hjá Kópavogsbæ.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×