Innlent

Samfylkingin siðar fulltrúa sína

Framkvæmdastjórn flokksins vill vanda til mannaráðninga í stjórnsýslunni.
Framkvæmdastjórn flokksins vill vanda til mannaráðninga í stjórnsýslunni. Mynd/Vilhelm
Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar leggur til að sett verði á laggirnar svokölluð siða- og sáttanefnd innan flokksins, sem eigi að hafa það hlutverk að fylgjast með því hvort flokksmenn, kjörnir fulltrúar og forystumenn víki frá stefnu flokksins með gjörðum sínum og taki að öðru leyti á erfiðum málum innan hans.

 

Þetta er meðal tillagna sem framkvæmdastjórnin hefur unnið upp úr starfi umbótanefndar flokksins, sem skilaði af sér skýrslu í desember síðastliðnum. Fréttablaðið hefur tillögurnar undir höndum, en þær verða kynntar á flokksstjórnarfundi nú um helgina.

 

Einnig er lagt til að nefnd verði falið að smíða siðareglur fyrir kjörna fulltrúa flokksins, þar sem kveðið verði á um skuldbindingu við grunngildi og samþykkta stefnu flokksins og vandaða stjórnsýsluhætti, svo sem við mannaráðningar.

Tillögurnar snúa að miklu leyti að innra starfi flokksins, fundahöldum, nefndastarfi og félagslífi.

 

Einn kaflinn fjallar um styrkjamál flokksins og einstakra flokksmanna. Framkvæmdastjórnin tekur undir það með umbótanefndinni að brýn nauðsyn sé að setja skýrar og þröngar reglur um fjármál flokksins og fjáröflun prófkjörsframbjóðenda.

 

Umbótanefndin lagði til að Samfylkingin bannaði auglýsingar í prófkjörsbaráttu og beitti sér einnig fyrir því að kosningaauglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðlum yrðu bannaðar. Í umsögn framkvæmdastjórnar segir að mikil eining hafi verið um bann við prófkjörsauglýsingum, en ekki um hið síðarnefnda. Framkvæmdastjórnin vísar svo hvoru tveggja í nefnd. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×