Viðskipti innlent

Telja stjórnmálaflokka forðast þjónustu skattlagðra fyrirtækja

Samtök ferðaþjónustunnar segja ríkisstjórnarflokkana funda í sölum opinberra stofnana þar sem ekki sé greiddur virðisaukaskattur. Fréttablaðið/GVA
Samtök ferðaþjónustunnar segja ríkisstjórnarflokkana funda í sölum opinberra stofnana þar sem ekki sé greiddur virðisaukaskattur. Fréttablaðið/GVA
„Það er ömurleg staða að stjórnmálaflokkarnir skuli vera búnir að skattleggja fyrirtækin svo harkalega að þeir verði sjálfir að forðast þjónustu þeirra,“ segir í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

 

„Það hefur vakið athygli þeirra fyrirtækja sem leigja út ráðstefnusali að stjórnmálaflokkar hafa að undanförnu haldið flokksþing sín í skólastofnunum,“ segja Samtök ferðaþjónustunnar og benda á að skólarnir þurfi ekki að standa skil á virðisaukaskatti vegna slíkrar útleigu.

 

Tvö dæmi er tiltekin af því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi haldið fundi í skólum. Vinstri græn hafi fundað tvívegis í Hagaskóla í fyrra. Um síðustu helgi hafi Samfylkingin haldið flokksþing í Fjölbrautaskóla Garðabæjar. Sá skóli hafi að vísu starfsleyfi en sökum fárra funda á ári fái hann undanþágu frá virðisaukaskatti. Þá hafi fyrirspurn Samtaka ferðaþjónustunnar í nóvember í fyrra til Hagaskóla um starfsleyfi og greiðslu virðisaukaskatts verið áframsend til borgarlögmanns, sem enn hafi hafi ekki svarað.

 

Enn fremur kemur fram að í Háskóla Íslands sé umfangsmikill ráðstefnurekstur sem ekki sé allur á vegum skólans. Þar sé virðisaukaskattur ekki rukkaður. „Það ríkir gríðarleg samkeppni á þessum markaði og fyrir löghlýðin fyrirtæki er erfitt að eiga í samkeppni við opinberar stofnanir sem þurfa ekki að standa skil á virðisaukaskatti,“ segja Samtök ferðaþjónustunnar. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×