Innlent

Dregið verði verulega úr hlutverki forsetans

Taka forsetaembættið til endurskoðunar Stjórnlagaráðsfulltrúar héldu ellefta ráðsfund sinn í gær. Þar var lagður fram fjöldi tillagna, bæði til kynningar og afgreiðslu.Fréttablaðið/gva
Taka forsetaembættið til endurskoðunar Stjórnlagaráðsfulltrúar héldu ellefta ráðsfund sinn í gær. Þar var lagður fram fjöldi tillagna, bæði til kynningar og afgreiðslu.Fréttablaðið/gva
Hlutverk og valdsvið forseta Íslands verður mun veigaminna en áður ef tillögur stjórnlagaráðs, sem lagðar voru fram til kynningar á fundi þess fyrir helgi, ná fram að ganga.

Sú nefnd stjórnlagaráðs sem falið var það verkefni að endurskoða ákvæði um forseta Íslands leggur meðal annars til að í stjórnarskránni verði ekki notað „leppaorðalag“ um hlutverk ráðherra og forseta, heldur verði völdum og ábyrgð hvers og eins lýst í skýrum orðum eins og þau séu í raun og veru. Því verði ekki lengur talað um að forseti framkvæmi tilteknar stjórnarathafnir, sem í raun eru á hendi ráðherra og eru á lagalegri og pólitískri ábyrgð hans.

Enn verður þó gert ráð fyrir að forsetinn hafi tiltekin verkefni með höndum. Honum yrði gert að mynda ríkisstjórn, skipa ráðherra og veita þeim lausn, náða sakamenn og stefna Alþingi saman eftir kosningar og setja það.

Í tillögunum er ekki tekin afstaða til einnar umdeildustu greinar stjórnarskrárinnar, þeirrar 26., sem kveður á um vald forseta til að synja lögum staðfestingar og skjóta þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í greinargerð með tillögunum er tekið fram að nefndin muni þurfa að komast að niðurstöðu um þetta mál.

Þá eru einnig lagðar til tvær breytingar á forminu í kringum forsetaembættið. Önnur breytingin lýtur að handhöfum forsetavalds, sem nú eru þrír: forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.

Tillagan kveður á um að þess í stað gegni forseti Alþingis stöðunni einn, enda hafi áður komið fram tillaga um að þingforseti sé kjörinn af tveimur þriðju hluta alþingismanna og sé því verðugur handhafi forsetavalds einn og óstuddur. Enn fremur er lagt til að hann fái ekki sérstaklega greitt fyrir þau störf heldur verði tekið tillit til hlutverksins í lögbundnum starfskjörum hans.

Þá er enn fremur lagt til að takmarka setu forseta við þrjú tímabil, eða tólf ár. Slíkar takmarkanir tíðkast víða erlendis.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×