Innlent

Auka á eftirlit stjórnvalda með meðferðarstofnunum

Eftirlit með áfangaheimilum og meðferðarstofnunum sem eru með samninga við ríkið verður aukið. Við gerð nýrra samninga er unnið að því að gera eftirlitið óháðara og sjálfstæðara en verið hefur. Fram til þessa hefur matið nær eingöngu verið á höndum sömu aðila og semja um starfsemina. Ætlað er að breytingarnar taki gildi á næsta ári.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir forvarsmenn stofnananna hafa verið með eins konar árangursmat og því verði áfram fylgt eftir. Unnið sé að gerð eftirlitskerfis með samningum sem ríkið geri við meðferðarstofnanir. Breytingarnar segir hann meðal annars tilkomnar vegna mála sem tengjast Barnaverndarstofu og gagnrýni Ríkisendurskoðunar á að sami aðili geri samningana og hafi eftirlit með þeim. Þar er meðal annars átt við samninga við meðferðarheimilið Árbót, Byrgið og Götusmiðjuna.

„Viðurkennast verður að að við getum ekki fjármagnað minni samtök án þess að vera með miklu betra eftirlit en við vorum með," segir Guðbjartur. „Þessar stofnanir eru dæmi um það og við erum að lenda í vandræðum með fleiri." Ráðherra bætir við að í ljósi þessa sé mjög mikilvægt fyrir ríkið að skilgreina kröfur sem gerðar séu til stofnana og sjá hvernig þeim sé framfylgt. „Þetta er einn af veikleikum kerfisins sem þarf að laga." Verði ekki staðið við gerða samninga segir Guðbjartur ríkið munu grípa inn í.

Eftirlit með einstökum stofnunum sem eru með samninga við ráðuneytið hefur þegar verið endurskoðað, en með breyttum reglum á að koma þeim málum í skipulagðari farveg til lengri tíma.

Gunnar Smári Egilsson, nýr formaður SÁÁ, gagnrýnir stjórnvöld í grein í Fréttablaðinu á laugardag. Hann segir ríkisfjármunum varið í lítil og veik meðferðarfélög sem hafi ekki þrótt til að veita boðlega þjónustu eða halda henni úti. Í grein sem birtist um helgina á vef SÁÁ nefnir hann sérstaklega Götusmiðjuna og Byrgið.

Guðbjartur segir vissulega nauðsynlegt að ríkið vandi sig við fjárveitingar til meðferðarstofnana og fylgist náið með hvað virki og hvað virki ekki. Það sé einmitt undirstaða þess aukna eftirlits sem farið verði í gang með.

„Ég get ekki séð að SÁÁ eigi að vera eitt eftir á markaðnum, það þarf vissulega að veita aðhald þar eins og annars staðar," segir Guðbjartur.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×