Erlent

NATO sendir ekki hermenn inn í Líbíu

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, ræddi við blaðamenn í Brussel í gær. Varnarmálaráðherrar sambandsins munu funda áfram í dag. fréttablaðið/ap
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, ræddi við blaðamenn í Brussel í gær. Varnarmálaráðherrar sambandsins munu funda áfram í dag. fréttablaðið/ap
Varnarmálaráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) telja að góður árangur hafi náðst með loftárásum á herafla Líbíu á síðustu tveimur mánuðum. NATO mun halda áfram loftárásum sínum eins lengi og þurfa þykir, sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri bandalagsins, á fundi með fjölmiðlafólki í höfuðstöðvum NATO í Brussel.

Á fundinum í gær samþykktu ráðherrarnir að heimila áframhaldandi loftárásir út september, til að framfylgja tilskipun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrarnir funda áfram í dag. Rasmussen sagði í gær að hann myndi nota fundinn til þess að ýta á að fleiri ríki taki þátt í áframhaldandi aðgerðum í Líbíu. Nokkur lönd bæru nú hitann og þungann af þeim, en ekki hefur verið greint frá því opinberlega hversu mörg ríki taka þátt í loftárásunum á landið.

Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að samkomulag hefði náðst við stjórnarandstöðuna um að framlengja þátttöku sænskra þotna í aðgerðum NATO. Þjóðverjar hafa ekki skipt um skoðun og taka ekki þátt í hernaðaraðgerðunum, þrátt fyrir mikinn þrýsting þar um.

Rasmussen sagði í gær aðeins tímaspursmál hvenær Múammar Gaddafí, leiðtogi Líbíu, hrökklist frá völdum, og því þurfi Sameinuðu þjóðirnar að undirbúa aðstoð við Líbíu eftir brotthvarf Gaddafís. Hann sagði skýrt að NATO ætlaði sér ekki að senda hermenn til landsins til að tryggja frið þar eftir að árásum linnir, enda rúmist slíkt ekki innan ályktunar öryggisráðsins.

Gaddafí hét því hins vegar á þriðjudag að gefast ekki upp. Hann sagði það eina kostinn í stöðunni, hvort sem það endaði með sigri eða dauða. Áfram voru gerðar harðar árásir á höfuðborg Líbíu, Trípólí, í gær. Árásir eru nú gerðar á daginn en ekki aðeins á kvöldin eða nóttunni eins og áður. NATO stendur þó fast á því að Gaddafí sé ekki og verði ekki skotmark árásanna. Þær rugli þó bæði og stöðvi hersveitir Gaddafís og beint samband sé á milli árásanna og verndun almennra borgara í landinu.

Áfram verður fundað í dag en búist er við því að mestur tími fari í umræður um stríðið gegn talibönum.brjann@frettabladid.is

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×