Erlent

Siðlausar og ólöglegar aðgerðir stjórnvalda í Sýrlandi

Erdogan forsætisráðherra Tyrklands segir að tekið verði við öllu flóttafólki frá Sýrlandi.
Erdogan forsætisráðherra Tyrklands segir að tekið verði við öllu flóttafólki frá Sýrlandi. Mynd/AP
Fjöldi fólks hefur flúið frá Sýrlandi til Tyrklands frá því á miðvikudagskvöld. Óttast er að árás á borgina Jisr al-Shughour sé yfirvofandi. Stjórnvöld segja að þar hafi vopnaðir hópar uppreisnarmanna drepið yfir 120 öryggissveitarmenn.

Sjónarvottar hafa sagt að tugir þúsunda hermanna haldi sig nú í nálægum bæjum í héraðinu Idlib og að fjöldi skriðdreka hafi nánast umkringt Jisr al-Shughour.

Tyrknesk yfirvöld segja að yfir 2.500 manns hafi flúið til landsins frá Sýrlandi.

Settar hafa verið upp flóttamannabúðir fyrir fimm þúsund manns í bænum Yayladagi og áætlað er að reisa aðrar í nálægum bæ.

Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að flóttafólki verði áfram hleypt inn í landið. Hann hvatti þó sýrlensk stjórnvöld til þess að gera þær breytingar sem mótmælendur vilji, til þess að koma á ró.

Embættismenn í Sýrlandi hafa hins vegar neitað því að um fólksflótta úr landinu sé að ræða, heldur séu þetta Sýrlendingar að heimsækja ættingja sína sem eigi heima hinum megin við landamærin.

Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að yfirvöld í Sýrlandi væru að reyna að berja almenning til hlýðni. Mótmæli í landinu hafa nú staðið í ellefu vikur. Pillay segir að 1.100 karlar, konur og börn hafi látist síðan mótmælin hófust. Hún kvað morð á þrettán ára gömlum dreng, sem virtist hafa verið pyntaður og svo skotinn, sýna að stefna stjórnvalda við að bæla niður mótmælin með öllum ráðum væri siðlaus og ólögleg. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×