Skoðun

Fríverslun og Hong Kong

Nýr fríverslunarsamningur við Hong Kong tryggir til framtíðar algert tollfrelsi íslenskra fiskafurða og iðnaðarvarnings. Hann skapar einnig mun öruggara og auðveldara umhverfi fyrir Íslendinga til almennra viðskipta og fjárfestinga í Hong Kong. Þar eru nú þegar íslensk fyrirtæki með ríflega 800 manns í vinnu.

Samningurinn er af nýrri kynslóð fríverslunarsamninga. Í honum eru ákvæði um þjónustuviðskipti, samkeppni og fjárfestingar, opinber útboð sem tryggja jafnræði á markaði, og um hugverkavernd. Viðskiptaumhverfið verður því mun tryggara en áður.

Fyrir íslenska hagsmuni var mikilvægt að ramma formlega inn þau gæði sem felast í samningnum. Þau geta stuðlað að því að margefla viðskipti, ekki síst á sviði sjávarfangs. En sala á sjávarfangi til Hong Kong hefur verið í örum vexti á allra síðustu árum. Þangað eru t.d. seldar lýsis-afurðir og sæbjúgu, sem nýlega er farið að nýta hér við land.

Varðandi framtíðina er rétt að undirstrika tvennt: Í fyrsta lagi er Hong Kong vaxandi miðstöð viðskipta inn á hin öflugu og rísandi markaðssvæði í Suðaustur-Asíu. Í öðru lagi hefur Hong Kong, sem síðan 1997 er hluti Kínverska Alþýðulýðveldisins, sett í sérstakan forgang aukin viðskiptatengsl við meginland Kína.

Tækifærin sem nýi fríverslunarsamningurinn opnar liggja því ekki aðeins í aðgangi að mörkuðum Hong Kong. Þau felast líka í tækifærunum sem hann skapar til að koma íslenskri framleiðslu á framfæri gegnum frumkvöðla í Hong Kong á hinn risastóra markað á meginlandi Kína, og Suðaustur-Asíu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×