Innlent

Kærir Fiskistofu fyrir átroðning í Arnarfirði

Arnarfjörðurinn er stór svo að menn eiga ekki að þurfa að „kássast upp á annarra manna jússur“ segir stjórnarformaður Íslenska kalkþörungafélagsins.
Arnarfjörðurinn er stór svo að menn eiga ekki að þurfa að „kássast upp á annarra manna jússur“ segir stjórnarformaður Íslenska kalkþörungafélagsins.
Íslenska kalkþörungafélagið, sem hefur verksmiðju sína á Bíldudal, hefur kært Fiskistofu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna þess að þeir veittu fyrirtækinu Fjarðarlaxi leyfi til að setja niður eldiskvíar framan við kalkþörunganámu sem kalkþörungafélagið hefur sérleyfi á.

„Þeir hafa plantað kvíum fyrir framan svæðið þannig að það er ekki hægt að komast að því nema valda skemmdum á kvíum, ankerum og fóðurlögnum frá Fjarðarlaxi,“ segir Sigurður Helgason, stjórnarformaður Íslenska kalkþörungafélagsins. „Í raun er þessi leyfisveiting Fiskistofu hreinn dónaskapur og yfirgangur í okkar garð. Arnarfjörðurinn er nú gríðarlega stór svo það ætti að vera hægt að veita þessi leyfi án þess að menn séu látnir kássast upp á annarra manna jússur. Þetta er bara eins og í villta vestrinu í gamla daga,“ segir hann.

Hann segir enn fremur að algjört stjórnleysi ríki í þessum málum. „Það virðist enginn hafa neina heildarsýn þannig að ein stofnun veitir leyfi ofan á leyfi frá annarri stofnun,“ bætir hann við.

Sjávar- og landbúnaðarráðuneytið tekur við stjórnsýslukærum af þessum toga og í framhaldinu biður það stofnunina sem kærð er um umsögn. Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir að enn hafi engin slík beiðni borist til Fiskistofu. Hann tekur hins vegar undir með Sigurði að úrbóta sé þörf í stjórnsýslunni í þessum efnum.

„Það vantar hreinlega heildstæða strandsvæðastjórnun á Íslandi,“ segir hann. „Stofnanir eru að reyna að gera sitt besta í þessu til að mæta aukinni ásókn í nýtingu strandsvæðanna.“

Ekkert samráð var haft við Íslenska kalkþörungafélagið áður en leyfið var veitt. Hrefna Gísladóttir, forstöðumaður fiskveiðistjórnunarsviðs Fiskistofu, segir að ávallt sé óskað eftir umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum og þeim sem augljóslega eigi hagsmuna að gæta áður en rekstrarleyfi sé veitt.

Aðspurð hvort ekki hafi verið eðlilegra að leita til Íslenska kalkþörungafélagsins segir hún að Fiskistofu hafi ekki verið kunnugt um að félagið hafi verið með umsvif á þessu svæði. Sigurður segir að þessar námur séu ekki nýttar nú. „En við stólum á þær í framtíðinni,“ segir hann.

Það er iðnaðarráðuneytið sem veitti sérleyfi á kalkþörunganámunni. Íslenska kalkþörungafélagið sendi kæruna inn í þar síðustu viku.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×