Innlent

Tannvernd barna þarf að endurskoða

Sigurður Benediktsson
Sigurður Benediktsson
Um næstu mánaðamót renna út síðustu samningar Sjúkratrygginga Íslands við tannlækna um ókeypis forvarnarskoðanir fyrir þriggja, sex og tólf ára börn. Samningaviðræður standa nú yfir milli tannlækna og Sjúkratrygginga en formaður Tannlæknafélagsins segir þörf á heildstæðri endurskoðun málaflokksins.

Samningar hafa verið um eftirlit fyrir ofangreinda aldurshópa frá ársbyrjun 2009, en flestir samninganna runnu út um síðustu áramót. Allnokkrir gilda þó fram á morgundag, en upp frá því verður sami háttur á niðurgreiðslu fyrir þessa þjónustu og aðrar heimsóknir barna til tannlækna.

Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að vilji tannlækna sé til að leysa málið. „Það eru þreifingar í gangi en það er ekki hægt að segja til um hvenær viðræðum gæti lokið.“

Sigurður bætir því við að þessi þjónusta sé þó bara hluti af heildarþjónustu fyrir börn sem þyrfti að hugsa upp á nýtt. „Þetta leysir ekki stærstu vandamálin, sem eru að hluti fólks hefur ekki efni á að senda börnin sín til tannlæknis vegna kostnaðar.“

Sigurður segir það orsakast að hluta af því að ráðuneytið hafi ekki hækkað viðmiðunartaxta sína vegna endurgreiðslu síðan 2004, á meðan tannlæknar hafa hækkað sína taxta eftir verðlagi.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×