Innlent

Enginn vafi talinn á ásetningi Hauks Þórs

 Haukur Þór Haraldsson, sem er til vinstri á myndinni, var fundinn sekur um að hafa dregið sér 118 milljónir króna af reikningi Landsbankans.
Haukur Þór Haraldsson, sem er til vinstri á myndinni, var fundinn sekur um að hafa dregið sér 118 milljónir króna af reikningi Landsbankans. Mynd/Valli
Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, var í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt.  Hann var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa millifært rúmar 118 milljónir króna af reikningi félags í eigu Landsbankans inn á eigin reikninga 8. og 9. október 2008. Haukur var prókúruhafi fyrir félagið, sem var skráð á Ermarsundseyjunni Guernsey, en í málsvörn sinni sagðist hann hafa millifært fjármunina þar sem honum þótti líklegt að eignir erlendra félaga myndu brenna upp hér á landi. Hann hafi því viljað koma fénu í öruggt skjól á íslenskum reikningi í eigu Íslendings.

Dómurinn tiltekur allnokkur atriði sem sögð eru renna stoðum undir þann ásetning Hauks að millifæra fjármunina í auðgunarskyni. Meðal annars hefði honum átt að vera ljóst að eignir Landsbankans hefðu verið fluttar yfir í Nýja Landsbankann skömmu eftir hrun, auk þess hefði hann ekki látið yfirmenn sína vita af þessari ráðstöfun og loks hefði hann ekki bakfært upphæðina sjö vikum síðar þegar skilanefnd bankans spurðist fyrir um millifærsluna.

Haukur þarf einnig að greiða verjanda sínum, Gesti Jónssyni, ríflega fjórar milljónir króna, en Gestur sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að málinu yrði áfrýjað. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×