Erlent

Síðasta ferð Atlantis vel heppnuð

Mikil fagnaðarlæti brutust út í höfuðstöðvum NASA þegar Atlantis hafði tekist að tengjast alþjóðlegu geimstöðinni í gær. Fréttablaðið/AP
Mikil fagnaðarlæti brutust út í höfuðstöðvum NASA þegar Atlantis hafði tekist að tengjast alþjóðlegu geimstöðinni í gær. Fréttablaðið/AP
Geimskutlan Atlantis lagði að alþjóðlegu geimstöðinni í gær 386 kílómetrum yfir Kyrrahafinu. Atlantis færir geimstöðinni birgðir sem eiga að endast í eitt ár. Verkefnið er hið síðasta sem framkvæmt verður af geimskutlum NASA, bandarísku geimaferðarstofnunarinnar, en að því loknu verður Atlantis tekin úr notkun, síðust geimskutlanna.

Geimskutlurnar hafa verið í notkun frá árinu 1981 en fimm slíkar voru byggðar á árunum 1979 til 1985. Tvær geimskutlanna, Challenger og Columbia, fórust en aðrar tvær, Endeavour og Discovery, hafa þegar verið teknar úr notkun. Endeavour og Discovery verður ásamt Atlantis komið fyrir á söfnum á næstunni.

Alls fóru geimskutlurnar fimm í 135 ferðir út í geim og hafa ferðast samtals lengri vegalengd en sem nemur frá sólinni til Júpíters. Lengsta ferð þeirra varði í 17 daga. NASA mun í kjölfar síðasta verkefnis Atlantis hætta að koma gervihnöttum og öðru á sporbaug um jörðu. Aðaláhersla geimferðaáætlunar NASA verður nú að vinna að því að koma mönnuðu geimfari fyrst á loftstein en síðar til Mars.

Charles Bolden, forstjóri NASA, segir að Bandaríkin verði áfram fremsta geimferðaríki heims þrátt fyrir endalok geimskutlanna. „Ég hvet bandarískan almenning til að hlusta á forsetann sem hefur sett þau markmið að fara á loftstein árið 2025 og til Mars árið 2030,“ sagði Bolden í gær. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×