Erlent

Gríðarlegt áfall fyrir forseta Afganistans

Hálfbróðir forsetans á fundi með stuðningsmönnum sínum í Kandahar fyrir tveimur árum. nordicphotos/afp
Hálfbróðir forsetans á fundi með stuðningsmönnum sínum í Kandahar fyrir tveimur árum. nordicphotos/afp
Ahmed Wali Karzai, hálfbróðir Hamids Karzai Afganistansforseta, var myrtur á heimili sínu í Kandahar, höfuðstað samnefnds héraðs í Afganistan. Ahmed Wali Karzai var valdamikill í héraðinu og hefur lengi verið sakaður um djúpstæða spillingu, sem nái til forsetans sjálfs og dregur meðal annars úr trausti Vesturlanda til hans.

Talibanahreyfingin segist bera ábyrgð á morðinu, en hún varð til í Kandahar-héraði og þar voru jafnan höfuðstöðvar hennar meðan talibanar réðu í Afganistan. Yfirvöld í Afganistan segja banamann Karzais vera Sardar Mohammed, sem naut fyllsta trausts hans og var fyrrverandi lífvörður elsta Karzai-bróðurins.

Mohammed er sagður hafa farið heim til Karzais til að biðja hann að undirrita pappíra. Meðan hann var að undirrita skjölin tók Mohammed upp byssu og skaut hann.

Fréttirnar af láti Ahmeds Walis bárust þegar Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti var í heimsókn hjá Karzai forseta.

„Svona er lífið í Afganistan,“ sagði Karzai þegar hann skýrði frá þessu á blaðamannafundi með Sarkozy. „Í húsum Afganistans búum við öll við þjáningar og von okkar er sú, ef Guð lofar, að afganska þjóðin losni við þessar þjáningar og á komist friður og stöðugleiki.“ - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×