Innlent

Skuldar 44 milljónir á Íslandi

Odd Nerdrum segist ekki talnaglöggur maður.
Odd Nerdrum segist ekki talnaglöggur maður. Mynd/Hari
Norski listmálarinn Odd Nerdrum skuldar um 44 milljónir króna í opinber gjöld hér á landi, en hann hefur verið ákærður fyrir stórfelld skattsvik í Noregi.

Nerdrum, sem er jafnframt með íslenskan ríkisborgararétt og hefur verið hér búsettur, mætti fyrir rétt í Noregi í fyrradag en þar er hann ákærður fyrir að hafa ekki greitt skatt af 14 milljónum norskra króna sem hann fékk fyrir sölu á verkum sínum á árunum 1998 til 2002. Það jafngildir um 300 milljónum íslenskra króna.

Í réttarhöldunum bar málarinn af sér sakir, sagðist ekki talnaglöggur en hann vissi ekki betur en að hann hefði gengið samviskusamlega frá sínum málum bæði gagnvart norskum og íslenskum yfirvöldum. Verði hann fundinn sekur á hann von á himinhárri sekt og jafnvel fangelsisdómi, að því er fullyrt er í norskum fjölmiðlum.

Hér heima hefur Tollstjórinn í Reykjavík síðan krafist gjaldþrotaskipta á búi einkahlutafélagsins Odds N ehf., sem er í eigu listmálarans. Félagið skuldar tæpar 44 milljónir í opinber gjöld og var fyrirkall vegna gjaldþrotaskiptabeiðninnar birt nýlega í Lögbirtingablaðinu. Þar er skorað á Nerdrum að mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur 7. september þar sem beiðnin verður tekin fyrir.

Nerdrum bjó sem áður segir um skeið á Íslandi í gamla Borgarbókasafninu við Þingholtsstræti, sem hann keypti af Guðjóni Má Guðjónssyni, kenndum við Oz. Nerdrum seldi athafnakonunni Ingunni Wernersdóttur húsið árið 2007 og flutti aftur til Noregs.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×