Fótbolti

Eggert Gunnþór: Vill fá sigur gegn Tottenham í afmælisgjöf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór, til hægri, er hér í leik Hearts gegn Rangers í fyrstu umferð skosku úrvalsdeildarinnar í síðasta mánuði.
Eggert Gunnþór, til hægri, er hér í leik Hearts gegn Rangers í fyrstu umferð skosku úrvalsdeildarinnar í síðasta mánuði. Nordic Photos/Getty
Dregið var í lokaumferðina í forkeppni Evrópudeildar UEFA í gær og fékk skoska liðið Hearts það erfiða verkefni að mæta Tottenham, sem sló rækilega í gegn í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Eggert Gunnþór Jónsson er leikmaður Hearts og hlakkar vitanlega til að fá að kljást við þá ensku.

„Það voru mörg erfið lið í pottinum en við fengum líklega það allra erfiðasta. Það verður samt gaman að fá að spreyta sig gegn Tottenham,“ sagði Eggert, sem mun halda upp á 23 ára afmælið sitt þegar liðin mætast í Edinborg hinn 18. ágúst næstkomandi.

„Það væri ekki leiðinlegt að fá sigur í afmælisgjöf,“ sagði hann. „Ég bið nú ekki um meira.“

Mikið hefur gengið á hjá Hearts á undanförnum vikum. Eigandi félagsins, Vladimir Romanov, ákvað að reka Jim Jefferies úr starfi knattspyrnustjóra og réði Paulo Sergio frá Portúgal í hans stað. Er það áttundi stjóri liðsins á síðustu sex árum.

„Mér líst vel á hann. Við fengum aðeins tvær æfingar með honum fyrir síðasta leik en mér fannst við strax ná að bæta okkar leik,“ sagði Eggert.

Eggert hefur leikið sem miðvörður í síðustu leikjum en segist helst vilja spila á miðjunni.

„Þar líður mér best. Ég var settur á miðjuna í leiknum gegn Rangers fyrir tveimur vikum en þá meiddist miðvörðurinn okkar og tók ég þá hans stöðu. Ég hef verið þar síðan,“ sagði Eggert.

„Það er samt skárra en að vera í hægri bakverðinum,“ bætti hann við í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×